07.04.1936
Sameinað þing: 11. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 182 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

1. mál, fjárlög 1937

*Héðinn Valdimarsson:

Háttv. 6. þm. Reykv., Sig. Kristjánsson, hélt því fram í ræðu sinni í dag, að umboðsmaður sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda hefði getað selt allan farminn úr Steady, eftir að skipið kom vestur, og þessari staðhæfingu sinni til sönnunar las hann upp bréf, sem skrifað mun hafa verið á ensku, en þýtt á íslenzku. En sá galli er á þessari fullyrðingu, að bréf þetta er dagsett daginn eftir að fiskurinn kemur vestur og kaupandi fiskjarins, sem seldur var fyrirfram, búinn að afsegja að kaupa hann. Hitt kemur aftur ekki þessu máli við, þó að nokkur hluti farmsins seldist til hins upphaflega kaupanda fyrir milligöngu Sigurðar Jónassonar án íhlutunar S. Í. F. Allt, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði, sannar því mitt mál.

Ef Kristján Einarsson hefði hugsað betur um þessi mál vestra, ekki hugsað eins mikið um að komast heim fyrir jólin, eins og hann gerði, þá hefði hann átt að athuga, að með því að senda farminn svona seint til Bandaríkjanna, þá væri farið að fiskast þar og tíminn því óheppilegur. Hér hafa því átt sér stað sömu mistökin og með frysta fiskinn, sem sendur var til Póllands. Hv. þm. Vestm., Jóhann Jósefsson hafði gefið þær upplýsingar, að bezti tíminn til þess að senda fisk þangað væri í marz og apríl, enda þótt síðar upplýstist, að bezti tíminn fyrir freðfisk væri fyrir jól. Það er því skotið yfir markið hjá hv. stjórnarandstæðingum að vera að vitna í fisksöluna til Póllands. Annars var reynslusending sú, sem þangað var send, send að hálfu leyti á ábyrgð fiskimálanefndar og að hálfu leyti á ábyrgð íslenzks manns, búsetts í Kaupmannahöfn. Og þrátt fyrir þau mistök, sem þegar hafa verið nefnd, að fiskurinn kom of seint. seldist hann þó fyrir það verð, sem hann hafði verið keyptur fyrir. Hefði tilraunin því borið sig, ef á fiskinn hefði ekki fallið ýmiskonar kostnaður, sem ekki var fyrirsjáanlegur í fyrstu.

Ég vil svo aðeins benda á eitt mál í viðbót, sem að vísu hefir ekki verið talað um í dag en í blöðum sjálfstæðismanna hefir verið gert mikið veður út af því, að Sigurður Jónasson hafi átt að gera tilraun með saltfisksölu í Ameríku, en nú hafi Júlíus Guðmundsson fengið leyfi til útflutnings á saltfiski til Ameríku. Nú var það svo í fyrra, að S. Í. F. var ekki löggilt og ekki hægt að löggilda það fyrr en eftir 1. marz, því það gat ekki upplýst, hvort það hefði nægilegt magn til þess að hljóta löggildingu.

Á þessum tíma kom hingað umboðsmaður fyrir bifreiðafirma til fiskimálanefndar og sagði, að hægt mundi vera að selja saltfisk í Ameríku ef að fengjust fluttar inn bifreiðar í staðinn. Þetta varð til þess, að sýnishorn af saltfiski var sent vestur, en það þvældist þar í pakkhúsum og varð að engum notum. En svo var óskað eftir, að tilraunum í þessa átt væri haldið áfram og þegar Sigurður Jónasson var sendur vestur var honum falið að athuga, hvort hægt mundi vera að selja í gegn um þessi bifreiðafirmu, en á sama tíma sendi sölusambandið umboðsmann sinn og mun hvorugur hafa vitað af öðrum.

Sigurður Jónasson fer til eins bifreiðafirma en fær það svar, að það hafi ekkert með slíkt að gera, en vísar honum á aðra, sem hann geti athugað hvort fáist til að kaupa fisk. Hann fór þá til 3 firma, en 2 þeirra vildu alls ekki kaupa. Það 3. var tilleiðanlegt, en þegar Sigurður nefnir verð fiskjarins, þá upplýstist það, að umboðsmaður frá sölusambandinu hefir verið þar áður og boðið fiskinn fyrir lægra verð. Sigurður Jónasson símar þetta svo til fiskimálanefndar og er þá ákveðið að hann hætti þessum tilraunum, en S. Í. F. er vísað á þennan mann.

Sölusambandið kennir Sigurði Jónassyni um það, að umboðsmaður þess hafi ekki getað selt fisk á sama tíma og uplýst er að þessi umboðsmaður bauð fiskinn fyrir lægra verð en Sigurður Jónasson. Hvaða skaða gat það unnið starfi þessa umboðsmanns, þótt annar byði sömu vöru fyrir hærra verð? Þetta sýnir aðeins það, að ekki hefir verið vel valið til sendiferðarinnar af hálfu sölusambandsins.

Litlu síðar kemur svo beiðni frá Júlíusi Guðmundssyni um leyfi fyrir útflutningi á saltfiski; hafði hann þá fengið tilboð um kaup á fiski einmitt frá þeim manni, sem Sigurður Jónasson hafði talað við og vísað á; að sjálfsögðu var leyfið veitt. Hér ber að sama brunni og annarsstaðar. Þau sambönd, sem umboðsmaður sölusambandsins hefir útvegað, hafa ekki reynzt haldgóð. Þau, sem fiskimálanefnd hefir fengið, hafa reynzt betur. Ég vona að næst þegar sölusambandið sendir mann í markaðsleit, að þá verði þess gætt, að hann hafi góðan tíma til ferðarinnar og sé ekki látinn fást við önnur viðfangsefni en þau, sem sölusambandinn kemur við og það getur ráðið við. Það má geta nærri, hvort möguleikarnir eru rannsakaðir nægilega með svona flugferð.

Sölusambandið hefir haft mann í tvö ár í Grikklandi fyrir 12 þús. krónur á ári, án þess að hann hafi selt einn ugga, og þessi maður hefir aldrei haft tíma til þess að fara til Gyðingalands eða Sýrlands, og hefi ég þó minnzt á það hvað eftir annað, að þar væru líkindi fyrir sölu.

En fjórir farmar eru sendir óseldir til Ítalíu. Þá er talað um sparnað. Mér finnst að S. Í. F. ætti fyrst og fremst að spara hjá sér. Þar eru þrír framkvæmdastjórar á 21 þús. kr. árslaun um hver, og hafa oft ekki meira en 2–3 tíma starf á dag. Þar finnst mér að mætti spara 42 þús. kr. og ætti fyrst og fremst að minnast á það, ef farið er að tala um sparnað á annað borð.

Það er talað um samvinnu. Ég skil vel, að íhaldsmenn vilji samvinnu með Bændaflokknum og Kommúnistum, en við eigum ekki samleið með þeim. Við vitum til hvers sú samvinna á að vera. Hún á að koma á gengislækkun og þar af leiðandi kauplækkun og þrengja meir en orðið er að verkalýðnum í landinu, og hún á að vera til þess að ná tveimur af þeim fimm milljónum, sem Kveldúlfur skuldar íslenzkum sparifjáreigendum.

Sú samvinna yrði fyrst og fremst fyrir stórbóndann á Korpúlfsstöðum og Kveldúlfsfélagið. Í þessari samfylkingu verðum við ekki. Við myndum samfylkingu Alþýðuflokksins með samvinnu alþýðumanna í sveitum og við sjó- og berjumst samhuga á móti íhaldinu.