26.03.1936
Neðri deild: 34. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 513 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

19. mál, eyðing svartbaks

*Frsm. (Garðar Þorsteinsson):

Allshn. hefir athugað þetta mál allýtarlega og einstakar gr. þess, og hún mælir með því, að þetta frv. verði samþ., en þó með einni allverulegri breyt. Samkv. 1. gr. frv. er svartbakur réttdræpur hvarvetna. Allshn. þykir rétt að taka það upp í þessa gr., að það sé ekki leyft að eyða svartbaki um varptímann, því að það þykir ekki vera mannúðlegt að fara með vopnum að þessum fugli, meðan hann situr á ungum sínum. En jafnvel þótt þetta atriði yrði ekki tekið upp í frv., þá mundi þessi gr., eins og hún er nú orðuð, í rauninni ekki heldur fá staðizt, því að það leiðir af sjálfu sér, að svartbakur getur ekki verið réttdræpur hvarvetna, nema innan þeirra takmarka, sem lög mæla fyrir, að heimilt sé að drepa þennan fugl; það er t. d. bannað að skjóta í varplandi eða selalátrum, svo að það leiðir af sjálfu sér, að þessi fugl er ekki réttdræpur hvarvetna, þ. e. ekki með skotum í varplandi eða selalátrum.

En hinsvegar má segja, að 1. gr. fái staðizt að þessu leyti, ef gengið er út frá því, að hægt sé að læðast að fuglinum og hengja hann í greip sinni.

Í öðru lagi hefir n. orðið sammálu um að leggja til, að það sé bannað að eyða svartbak með eitri. Það er að vísu svo, að í l. er það hvergi berum orðum bannað að drepa svartbak með eitri, en í frv. eins og það kom fram í fyrra er beinlínis heimilað að eitra fyrir þennan fugl. Í þessu frv. er ekkert tekið fram um það, hvort það sé tilætlunin, að svartbakurinn sé eitraður eða ekki. En í 2. gr. er heimild til að setja reglugerð um eyðingu svartbaks almennt. Mér er ekki grunlaust um, að það hafi verið meiningin að smeygja þar inn ákvæðum um eyðingu með eitri. Allshn. er sammála um þetta, er mér óhætt að segja. Það getur verið, að fyrirvari hv. 1. þm. Árn. eigi að skoðast þannig, að hann sé ekki ráðinn í, hvort hann vilji leyfa eitrun eða ekki, en a. m. k. hinir nm. munu vera sammála um, að það sé rétt að banna að drepa þennan fugl með eitri. Er margt, sem ber til þess. Í fyrsta lagi er það ákaflega hrottaleg aðferð að drepa fuglinn á eitri og láta hann kveljast af misjafnlega sterku eitri. Frá mannúðlegu sjónarmiði er slík aðferð óforsvaranleg. Í öðru lagi er það vitað, að slíkri eitrun mundi ekki vera hægt að koma þannig fyrir, að þessi fugl yrði fyrir henni einn. Það er vitað, að ernir t. d. mundu útrýmast, ef þessi eitrun ætti sér stað, og ekki er ótrúlegt, að hundar mundu glepjast af slíku æti. Það er vitanlegt, að þeir hafa drepið sig á eitri, sem sett hefir verið fyrir refi, og er það þó látið inni í óbyggðum, en þessi eitrun mundi fara fram í byggðum niður við sjó eða úti í eyjum, þar sem það væri aðgengilegra fyrir aðrar skepnur. Veit ég það ekki heldur og hefi ekki spurt lækna að því, en það er ekki víst, nema þetta geti verið hættulegt mönnum, þannig að fugl, sem væri búinn að taka eitrun, væri skotinn og étinn, og að slík eitrun gæti komið fram í þeim, sem neyttu fuglsins. Mér er sagt, að það hafi jafnvel orðið slys af, þegar eitrað hefir verið fyrir refi, og ætti þó að vera minni hætta á því. Ég veit, að það er litið á þennan fugl sem mjög mikinn varg, sem eyðileggur varplönd manna og tínir upp í sig æðarkolluunga. Mér er sagt, að ein slík skepna mundi yfir varptímann geta drepið upp undir 200 unga. Ég veit ekki, hvað þær tölur eru áreiðanlegar, en þrátt fyrir það álít ég ekki rétt að hafa þessa aðferð. Þá er á það að líta, að það eru ýmsir, sem hafa allverulegar tekjur af þessum fugli, og frá þeirra sjónarmiði væri friðun eins æskileg eins og eitrun, og ég veit, að þessi fugl er seldur fyrir sæmilegt verð. Að því alveg slepptu, þá verð ég að álíta þessa aðferð til að útrýma þessum fugli ódrengilega og ósamrýmanlega því, að menn keppa nú yfirleitt að því að fara sem bezt með skepnur. (PZ: Hvernig er með rotturnar?). Hvernig er með lýsnar? má segja. Það eru ýmsar skepnur, sem eru drepnar á mismunandi hátt, en ég álít ekki samjöfnuð á því, hvað rottur eru ógeðslegri og óþarfari en svartbakur, auk þess sem rottueitrun er ekki hættuleg öðrum skepnum eða mönnum, svo að það er ekki hægt að bera þetta saman hér. N. er hinsvegar samþ. því að heimila hreppum að ráða sérstakar svartbaksskyttur þar, sem mikið er um þennan varg. N. getur ekki heldur fallizt á, að það sé réttmætt að sekta menn allt að 500 kr., þó þeir reyni í verki að varna því, að eyðing svarthaks fari fram í samræmi við samþykktir, sem gerðar hafa verið. Þetta minnir mig á njósnaramálin svokölluðu. Við skulum segja, að maður sjái skyttuna nálgast hóp svartbaka, sem sitja niðri á túninu hjá honum; maðurinn vill ógjarnan láta skjóta fuglana og sigar því hundunum niður túnið af því að hann gerði þetta, hefir hann hindrað skyttuna í að skjóta fuglana. En af því að hann gerir þetta á að sekta hann um 500 kr. Mér finnst það mætti ná nokkrum árangri með þessari löggjöf, þó ekki séu sett í hana svona bandvitlaus ákvæði. N. vill hafa hóf á þessu. og láta sektina vera 10 og upp í 100 kr. Í 6. gr. eru ákvæði um það, að eigandi jarðar sé skyldur að gera allt, sem hægt er, til þess að eyða svartbak í þeim löndum, sem hann hefir umráð yfir. Ella skal hann, ef um vanrækslu á þessu er að ræða greiða 50–300 kr. sekt. N. leggur til, að þessi gr. verði felld burt. Ekki vegna þess, að í svona löggjöf sé ekki nauðsynlegt að hafa einhver ákvæði, sem skyldi menn til þess að eyða svartbak, en hinsvegar telur n. þetta ákvæði ekki eiga heima í l. sjálfum, heldur í reglugerð, sem gert er ráð fyrir, að verði sett samkvæmt 2. og 3. gr. frv. Fer betur á, að slíkt ákvæði sé sett rúmt í l., en ráðh. aftur á móti gefin heimild til að setja um þetta nánari fyrirmæli eftir því, hvar þetta er o. s. frv. Í 7. gr. er ákveðið, að sektir, sem inn komi, eigi að renna að 2/3 til uppljóstrarmanns, en að 1/3 til sveitarsjóðs. N. getur ekki fellt sig við þetta, að það sé verið að éta undir menn að kæra og njósna um menn. N. vill þess vegna láta allt féð renna í sveitarsjóð. Þá er það ákvæði í frv., að greiddir séu úr ríkissjóði 20 aurar fyrir hvern skotinn svartbak. Við þetta hefir hæstv. fjmrh. fundið ástæðu til að gera brtt. En ég sé nú satt að segja ekki, að þetta sé sú upphæð, að það hefði verið nauðsynlegt fyrir hæstv. ráðh. að fara að gera brtt. við það. Hann hefir kannske athugað, hvað bæjarsjóður greiðir margar kr. fyrir rottuskott, og hefir kannske komizt að þeirri niðurstöðu, að það mundi setja Reykjavíkurbæ á hausinn þessir 10 aurar, sem hann borgar fyrir skott, og yrði því ókleift, ef ríkissjóður ætti að fara að borga 20 aura fyrir hverja fuglslöpp. Ég skal ekkert um þetta segja, en ég veit að þetta er af sparsemi gert fyrir ríkissjóð, og er það þakkarvert og betra heldur en að eiga kannske von á nýjum sköttum til þessara útgjalda.