27.03.1936
Neðri deild: 35. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 520 í B-deild Alþingistíðinda. (674)

19. mál, eyðing svartbaks

*Jón Pálmason:

Ég kvaddi mér hljóðs í gær, eftir að frsm. allshn. hafði talað fyrir brtt. n. Eftir það fluttu ýmsir hv. þm. ræður í deildinni, og tóku sumir þeirra að mestu af mér ómakið með það, sem ég ætlaði að segja, eins og t. d. þeir hv. þm. Mýr. og hv. 9. landsk.

Ég verð nú að segja það, að mér þótti harla undarlegt, að hv. allshn. skyldi snúa frv. þessu svo mjög við með till. sínum, að gera það að friðunarfrv. fyrir svartbak, í stað þess að vera frv. til laga um eyðingu hans, en svo myndi sannarlega verða, ef brtt. yrðu samþykktar.

Það vita allir, sem fugl þennan þekkja, að hann er hinn mesti vargur, sem á ýmsan hátt gerir meira og minna tjón, og mun því almenn ósk þeirra, sem undir ágangi hans verða að búa, að honum sé eytt eftir því, sem föng eru á. Samkv. brtt. hv. allshn. á að banna að eyða vargi þessum um varptímann, og alls ekki með eitri. Það yrði því ekki unnt að koma tilgangi frv. í framkvæmd á annan hátt en með því að eyða eggjum hans og ungum. Annars fannst mér skörin fara að færast upp í bekkinn, þegar farið var að tala fyrir brtt. þessum með hjartnæmum orðum með tilraunum um að slá á strengi mannúðar og manndóms, þegar það er vitað, að þessi fugl er hinn mesti vargur í véum, sem eyðir lífi allskonar ungviða á hinn miskunnarlausasta hátt. Þessu var lýst hér nákvæmlega í gær af hv. þm. Mýr., hvernig þessi fugl hagar sér með tilliti til æðarvarps, en ég get bætt því við, að það er ekki eingöngu að hann rífi í sundur unga og egg í hreiðrum, heldur hefi ég líka verið sjónarvottur að því, að svartbakar hafa ráðizt á kollur, sem hafa legið á eggjum, og rifið þær í sundur. En það er ekki eingöngu miðað við þennan eina atvinnuveg sem þessi vargfugi er skaðlegur, heldur er hann einnig hættulegur vargur þar, sem er lax- eða silungsveiði. Hann er kallaður veiðibjalla, og það nafn hefir hann fengið af því, að hann lifir á laxa- og silungaseiðum, og þar sem lax- og silungsveiði er, er hann engu minni vargur en selurinn, og er það fullkunnugt, hve góður gestur hann er á þeim stöðum. Það er líka kunnugt, að þar sem svartbakur heldur sig, leggst hann oft á vorlömb, og þeir menn, sem mest tala um mannúð, ættu að vera þar viðstaddir, þegar hann ræðst á lömbin, áður en þau komust á fætur, og rífur þau á hol og rekur úr þeim garnirnar, eða þegar hann étur tunguna úr lambinu á meðan það er í burðarliðnum. Þetta ættu þeir að sjá, sem nú tala mest um mannúð, og hugleiða svo, hve mikil mannúð er í því að hlífa slíkum vargi.

Ég skal svo ekki fara um þetta öllu fleiri orðum, en með tilliti til þeirra andmæla, sem hafa komið fram gegn því að eitra fyrir þennan fugl, er vert að geta þess, að það er mjög orðum aukið, hvílík hætta stafi af því fyrir aðra fugla. Að vísu er til annar fugl, sem eitrunin getur orðið hættuleg, og það er hrafninn, en ég held ekki, að það geti talizt sá skaði skeður fyrir það, þótt hann eyddist nokkuð, að þess vegna sé ástæða að hafa mjög mikið á móti eitrun.

Í þessu sambandi er vert að minnast á það, að þeir, sem vilja, að frv. verði breytt og það gert að friðunarlögum fyrir svartbakinn, vilja þó líklega, að eitrað sé fyrir rottur; en svartbakurinn er á sínu sviði eins skaðlegur eins og rottan á sínu sviði, svo þeir, sem vilja friða svartbakinn, ættu að vera sjálfum sér samkvæmir og láta líka friða rottuna.