28.03.1936
Neðri deild: 36. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 522 í B-deild Alþingistíðinda. (677)

19. mál, eyðing svartbaks

*Sigurður Einarsson:

Ég get ekki skilizt svo við umr. þessa máls, að bæta ekki nokkrum orðum við það, sem ég hefi sagt áður.

Ég hefi verið svo heppinn undanfarna daga að ná tali af tveimur bændum við Breiðfjörð, sem eru vitanlega gerkunnugir öllu, er lýtur að varpi o. s. frv. Annar þeirra, Þórður Jónsson, hreppstjóri í Múlahreppi, segir mér svo, að í þeim hreppi hafi varpið farið hraðminnkandi síðustu 5–6 árin vegna ágangs svartbaksins. Þessir menn, sem eiga varplönd við Breiðafjörð, og ýmsir annarsstaðar af landinu, þeir sjá ekki annað en varpið muni eyðast og hverfa, svo að horfi til auðnar, ef ekki er hafizt handa með allsherjarsókn á hendur svartbaknum. Og þessir menn skilja ekki, hvers vegna Alþingi vill ekki heimila þeim að útrýma þessum skaðsemdarvarg með hverskonar venjulegum aðferðum.

Ég verð að láta það í ljós sem mína skoðun og taka ábyrgðina á því, þó að það verði kallað ómannúðlegt tal, að ég tel það ekki annað en tilfinningavellu og kák eitt, ef á að fyrirbyggja það, að grípa megi til þeirra ráða eða útrýmingaraðferða, sem öruggastar eru, ef þær aðferðir ná samþykki í sýslunum.

Það er áður búið að sýna fram á það í umræðunum, að svartbakurinn kvelur hverja skepnu, sem hann nær í og er honum minni máttar, og þess vegna mega menn ekki láta sér til hugar koma, að þjáningum dýranna verði útrýmt með því að friða svartbakinn, — síður en svo.

Ef við tökum nú dæmi af Múlasveit, sem er sú sundurskornasta og ógreiðfærasta sveit á landinu sem ég þekki, þá sjáum við, að það eina, sem gerir fært að búa í þessari sveit, er, að hver bóndi hefir hlunnindi af æðarvarpi, eða frá 15–70 pd. árlega af æðardún. En þegar svo þessir menn sjá fram á, að þessar tekjur muni ganga til þurrðar af völdum svartbaksins, þá furða þeir sig á því, ef Alþingi vill ekki gera þeim fært að losa sig við þá plágu, því það horfir ekki annað við þessum bændum en yfirgefa þessa sveit, ef lífvænlegasta tekjugrein þeirra eyðist og hverfur.

Ég vil að lokum skjóta þessu máli til drengskapar og velvilja hv. þm. og vænta þess, að þeir láti meira ráða hagsmuni bændanna en áróður Reykvíkinga þeirra, sem aldrei hafa séð svartbak.