14.04.1936
Neðri deild: 48. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (693)

19. mál, eyðing svartbaks

*Sigurður Einarsson:

Ég get ekki fallizt á það, að þetta frv., eins og það nú liggur fyrir, sé þjóðinni til skammar, en það er annað, sem er þjóðinni til skammar. Það er þjóðinni til skammar, ef varp og varptekjur Íslendinga eru látnar ganga eins úr sér eins og verið hefir að undanförnu vegna þess, að löggjöfin hafi ekki dáð í sér til að aðstoða varpeigendur eins vel og með þarf. Ég kann ekki heldur við það, og finnst það hlægilegt, þegar hv. 8. landsk. er að tala um meðfædda grimmd, og svo er hann að tala um aumingja fuglinn, en um æðarvarpseigendur talar hann eins og þeir væru kvikindi. Hann talaði um þá með djúpri fyrirlitningu, sérstaklega ef þeir væru ekki fleiri en fimm saman. — En ég vil segja þessum hv. þm. það, að hann má tína saman æðimarga svartbaka, ef ég á að meta þann hóp meira en fimm æðarvarpseigendur. Það sýnir bezt, að málið er sótt af allmiklu kappi, að farið er að tala um mennina eins og þeir væru auðvirðileg kvikindi, en kvikindin — varpfuglinn, sem á að eyða vegna þess, hve hann er skaðlegur, er orðinn að heilögu dýri.

Þá þótti mér allt blikkplötuhjal hv. 8. landsk. allóviðfelldið. Af ræðu hans mætti halda, að Breiðfirðingar stæðu við það dögum eða jafnvel vikum saman út um klappir og sker að klippa blikkplötur ofan í svartbak, en það er öllum sanni fjarri. Það getur verið, að einhverntíma hafi það komið fyrir, að varpeigandi, sem hefir átt erfitt með að verja varp sitt fyrir ágangi þessa vargs, hafi í úrræðaleysi gripið til þess að klippa ofan í þá eina eða tvær plötur, en það hefir þá verið vegna þess, að sá maður hefir verið hálfsturlaður af ergelsi vegna þess skaða, sem þessi vargur hefir unnið honum.