17.04.1936
Efri deild: 50. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

19. mál, eyðing svartbaks

*Jón Baldvinsson:

Það er nú nokkur vandi að fara að tala í þessu máli, frv. til l. um eyðingu svartbaks, eftir að öll gáfnaljós Nd. hafa rætt um það af miklu andríki dögum saman. Ég ætla ekki að fara út í allt, sem skeð hefir í þessu máli, síðan það kom fyrst fram; það hefir átt býsna örðugt uppdráttar þar til nú að það virðist ætla að ná fram að ganga.

Það er ein brtt., sem kom fram í Nd., er mér finnst ástæða til að hreyfa hér. Og þó ég hafi verið svo óforsjáll að láta ekki prenta hana upp fyrirfram, og beri hana því fram skrifl., vona ég, að hún fái að koma til atkv., svo það sjáist, hvernig hv. þm. taka henni. Þetta er brtt. við 3. gr. í þá átt, að ekki megi fyrirskipa í reglugerð hverskonar eyðingar- eða refsiaðgerðir gegn svartbaknum sem vera skal, heldur hafi ráðh. dálítið svigrúm til að neita að staðfesta reglugerðir og fá þeim breyt, ef honum sýnist svo og í þeim er gert ráð fyrir mjög ómannúðlegum drápsaðferðum. Samskonar till. var borin fram við 3. umr. í Nd., og er öllum hv. þm. kunnugt, hvað í henni felst. Tel ég slíkt ákvæði vanta í frv., því það er ekki að vita, nema menn finni upp á hinum fáránlegustu hlutum til eyðingar svartbaknum, eftir því, sem hv. neðrideildarmenn töluðu um þessa hluti.

Mun ég svo afhenda hæstv. forseta till. án frekari ummæla.