17.04.1936
Efri deild: 50. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 539 í B-deild Alþingistíðinda. (706)

19. mál, eyðing svartbaks

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég er ekki einn af þessum léttúðugu mönnum, sem geta verið að láta menn brosa, þegar þeir taka til máls.

Hv. 4. landsk. kom fram með það sem rök í þessu máli, að það yrði e. t. v. útrýmt öllum svartbak, svo engin egg fengjust. Það vill nú svo vel til, að svartbakurinn heldur til víðar en á Breiðafirði, eða þar sem æðarvarp er; hann heldur sig oft nálægt fjöllum, þar sem ekkert varp er, og þar fær hann sennilega að vera í friði, svo varla eyðist allur svartbakur.

Samkv. frv. eiga ekki hreppsnefndir, heldur sýslunefndir að hafa vald í þessum efnum. En ég vil undirstrika það, að ég treysti hvaða ráðh. sem er, af hvaða flokki sem hann er, til þess að samþ. ekki reglugerð, sem gengur í þá átt að leyfa ómannúðlegar aðferðir til þess að eyða þessum fugli. Hér er ætlazt til, að fugli þessum verði eytt með skotum í fyrsta lagi. Og hvað viðvíkur því að eitra fyrir hann, þá veit ég ekki betur en að eitrað sé fyrir refi, sem hafa tilfinningu alveg eins og svartbakurinn. Þá má einnig minna á það, að skyttur fara upp um fjöll og heiðar til að skjóta rjúpur. Það þykir ekkert athugavert við það. En samt sem áður er það víst, að margar rjúpur særast af skotum og kveljast lengi helsærðar af þeim orsökum. Og ekki er bannað að skjóta rjúpur. Og það mætti telja margt fleira þessu líkt. Þess vegna skil ég ekki andúð manna gegn því að reyna að vernda atvinnuveg bænda, kannske fátækra bænda, í vissum héruðum landsins, sem hafa varplönd. Hrafninn er kallaður vitur fugl og skemmtilegur. En þó er hann réttdræpur hvar sem er, ef menn vilja það við hafa að sálga krumma-greyinu. Mín afstaða í þessu máli afmarkast af því, að ég vil vernda varplönd bænda fyrir þessum skaðlega ránfugli fyrst og fremst.