22.02.1936
Neðri deild: 6. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

18. mál, útsvör

*Flm. (Jakob Möller):

Þetta frv. var flutt á síðasta þingi, rétt um þinglokin, og var afgr. frá þessari hv. d. með afbrigðum. Það þótti svo augljóst, að rétt væri að samþ. frv., að afbrigðin um það voru leyfð umræðulaust. En svo strandaði það.

Hv. þdm. er kunnugt efni þessa frv., enda fylgir því ýtarleg grg., svo að ég þarf ekki mikið um það að segja. Efni frv. er aðallega heimild til þess að mega leggja útsvar á tekjur yfirstandandi árs þegar útsvarið er lagt á, hjá mönnum, sem búast má við að flytji úr landi og ekki náist útsvar af, ef lagt er útsvar á þá eftir venjulegum reglum, að leggja á tekjur undanfarins árs. Í öðru lagi er hér um að ræða breyt. á fyrirmælum um skiptingu útsvara á milli sveitarfélaga. Og svo eru ákvæði um afstöðu hjóna til útsvarsgreiðslna. — Þá eru og ákvæði í frv., sem er leiðrétting á villu í 1. frá 1934, þarf sem það ákvæði var sett inn í l. að sveitar- og bæjarfélögum væri ekki heimilt að áfrýja úrskurði yfirskattan. til æðra stigs. Vitanlega var þetta ekki meiningin, heldur hefir þetta ákvæði komið af vangá inn í lögin.

Það er gömul venja að vísa málum sem þessu til allshn. Þótt þetta frv. lægi fyrir fjhn. á síðasta þingi, virðist mér rétt að fylgja hinni gömlu venju og legg til, að því verði vísað til allshn. að lokinni þessari umr.