20.03.1936
Neðri deild: 29. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 542 í B-deild Alþingistíðinda. (716)

18. mál, útsvör

*Frsm. (Garðar Þorsteinsson):

Allshn. hefir haft þetta mál til meðferðar og komið sér saman um að mæla með því, að það verði samþ. Hún hefir þó viljað láta þess getið, að útsvarslöggjöfin er að ýmsu leyti ekki í því formi, sem hún ætti að vera, og n. telur engan efa, að mörg ákvæði mætti færa til betri vegar. Hún telur því þessa breyt., sem fram er komin að mestu fyrir tilhlutun ríkisskattan., sjálfsagða, en þó sem bráðabirgðabreyt. og að nokkru leyti sem leiðréttingu á l. eins og þau voru, sérstaklega að því er snertir 9. gr., þar sem blandað er saman gjaldári og útsvarsári. N. telur, að sú nefnd, sem situr nú á rökstólum til þess að semja frumv. um tekjuöflun sveita og kaupstaða, eigi einmitt í sambandi við þau mál að koma með eitthvert frv. til lagfæringar á útsvarslögunum, því að það er ljóst, að þessi tvö mál eru svo nátengd. Ég sé þess vegna ekki ástæðu til að fara nánar inn á þetta. Sem sagt, breyt. eru fremur til bráðabirgða heldur en sem varanleg bót á þessu máli. N. hefir hinsvegar viljað verða við þeim tilmælum, sem hafa borizt henni frá bæjarstj. Rvíkur um að heimila ríkisstj. að setja reglugerð, sem skyldi kaupgreiðendur til að halda eftir hluta af kaupi fastra starfsmanna til greiðslu útsvars. Þetta er alveg hliðstætt heimild ráðuneytisins. Og samkv. henni hefir verið sett reglugerð um að halda eftir af kaupi til greiðslu tekju- og eignarskatts. Er ekki ástæða til að gera upp á milli þessara tveggja hluta. En það eru mjög mikil þægindi við innheimtu, sérstaklega í hinum stærri kaupstöðum, ef kaupgreiðendur halda eftir hluta af kaupi manna til útsvarsgreiðslu, eftir þar að lútandi nánari ákvæðum. Auðvitað þarf í slíkum reglugerðum að setja fyrirmæli um það, að ekki sé hægt að halda eftir nema ákveðnum hluta í hvert sinn, og fari eftir efnum og ástæðum einstaklingsins.

N. hefir ekki sem slík tekið afstöðu til þeirra brtt., sem liggja fyrir á þskj. 104 frá hv. þm. Mýr., að þeir menn verði útsvarsskyldir, sem eiga húseign eða sumarbústað í sveit, sem bakar hlutaðeigandi sveit aukin útgjöld til almenningsþarfa. 1 af 5 nm. eru á móti þessari brtt. N. tók ekki sem slík neina ákvörðun, en ég hygg ég hafi ekki farið rangt með um afstöðu nm., og ef til vill eru þeir allir á móti. Ef heimilað er að leggja á menn, búsetta í kaupstað og útsvarsskylda þar, ný útsvör í sveit vegna húseignar þar, þá er komið inn á þá leið, sem hingað til hefir ekki þótt fært að fara inn á. Það hefir hér í Reykjavík einu sinni verið lagt á húseign, þar sem eigandinn var búsettur utan Reykjavíkur, og rökfært með því, að eigandinn hefði allverulegar tekjur af þessari húseign, og því ekki ósanngjarnt, að bærinn fengi einhverja útsvarsgreiðslu. Þetta var lagt fyrir dómstóla og úrskurðað óheimilt. Og ég veit ekki betur en að við endurskoðun útsvarslaganna áður hafi einmitt verið athugaður þessi möguleiki til að leggja á menn, sem ættu húseign á staðnum, og það ekki hingað til verið talið af löggjafanum rétt að fara inn á þá leið. Enda er ljóst, að það mundi útiloka, að kaupstaðarbúar, sem gjarnan vilja reyna að dvelja úti í sveit með fjölskyldum sínum yfir sumarið, ef þeir þurfa ekki nauðsynlega að vera í kaupstað, leggi á sig nokkurn kostnað til að byggja sumarbústað, ef þeir eiga þar að auki á hættu að verða að greiða svo og svo há opinber gjöld.

Það getur hinsvegar verið rétt, að viðkomandi sveit þurfi að greiða örlítið gjald vegna slíkra húseigna. En á það er og lítandi, að það er beinn hagnaður fyrir viðkomandi sveitarfélög, að sumarbústaðir komist upp. Þeir gefa ætíð nokkrar tekjur fyrir þá, sem þar búa nær. Slíkar fjölskyldur kaupa mjólk og egg og nýmeti af bændum í grennd. Og sá hagnaður, sem þannig kemur einstaklingnum í sveit, er vitanlega hagnaður fyrir sveitina sjálfam

Það er alveg ljóst, að ef d. gengur inn á að samþ. þessar brtt. hv. þm. Mýr., þá er þar með komið inn á þá leið, sem er í raun og veru ekki fyllilega séð, hve langt muni leiða. En það mundi að sjálfsögðu leiða til þess, að komið yrði inn fyllri ákvæðum, þar sem kaupstöðum er heimilað að leggja útsvör á þær eignir bæjarmanna, sem ekki eru í bænum. Í Reykjavík yrði það ekki lítil upphæð, sem menn utan Reykjavíkur yrðu að greiða. Það hefir ekki þótt fært hingað til að leggja útsvar á fasteign nema í einu einasta tilfelli, og það er þegar útlendingar eiga. Ég fyrir mitt leyti vil þess vegna mótmæla þessari till. sem gangandi í bága við það princip, sem löggjafinn annars hefir um svipað atriði.