20.03.1936
Neðri deild: 29. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 544 í B-deild Alþingistíðinda. (718)

18. mál, útsvör

Bjarni Ásgeirsson:

Ég get verið fáorður um þessa till. eftir ræðu hv. 1. þm. Árn. Mér þykir það leitt, að hv. n. hefir ekki séð sér fært að taka tillit til hennar. Ég held, að allir, sem lesa hana rólega, hljóti að sjá, að hún er mjög sanngjörn og réttmæt. Þegar ákveðinn hluti opinberra gjalda, eins og t. d. sýslusjóðsgjalds, er miðaður vil og tekinn af fasteignum þeim, sem eru innan sveitarinnar, þá eiga þau gjöld að koma niður á þá menn, sem eiga viðkomandi fasteign. Í þeim sveitum, þar sem mikið er af slíkum byggingum, en það er sérstaklega í þeim tveim sýslum, sem hv. 1. þm. Árn. minntist á, þá dregur það ekki svo lítið fyrir fátæk sveitarfélög að taka á sig þessi gjöld vegna manna, sem búsettir eru annarsstaðar og engin gjöld greiða til opinberra þarfa þar.

Hv. 8. landsk. hélt því fram, að hér væri verið að byrja á nýrri stefnu í útsvarsmálum með því að leggja útsvör á húseignir manna, sem búsettir eru utan byggðarlagsins. En þó að þetta sé sett í útsvarslögin og nefnt útsvar, þá er það í rauninni ekki undir venjulegum kringumstæðum útsvar. Það er tekið fram, að ekki sé leyfilegt að leggja á þessa menn almennt útsvar, heldur aðeins þau gjöld, sem viðkonandi sveit verður að borga fyrir eignir viðkomandi manna, sem búa utan sveitarinnar. Þetta raskar í sjálfu sér á engan hátt reglum þeim, sem gilda í almennum útsvarsmálum.

Hv. 8. landsk. talaði mikið um það, hvaða hagnað sveitirnar hefðu af slíkum byggingum vegna aukinna viðskipta af hálfu þeirra manna, sem ættu sumarbústaðina. Ég get svarað eins og hv. 1. þm. Árn. Ég býst við, að hagnaðurinn af þessum sumarbústöðum sé líkur hjá báðum. Ég býst við, að þeir, sem í sumarbústöðunum búa, fái það, sem þeir kaupa af bændum, fyrir lægra verð en á markaðinum í Reykjavík, þó að það sé kannske hærra en það, sem bændur annars fá. Ég vil benda hv. þm. á það, að það er meira en þetta, sem dregur eftir sér dilk fyrir viðkomandi sveitir, að fá þessar fasteignir inn í sveitirnar, t. d. þegar verið er að skipta útsvörum, sem sérstaklega eru farin að tíðkast samkv. útsvarslögunum, milli Rvíkur og þessara sveita hinsvegar, útsvörum manna, sem að einhverju leyti njóta atvinnu í Rvík, þá er einn liður í útreikningnum, hve hátt sé fasteignaverð í viðkomandi sveitum. Og því hærra sem það er, því lægri verður þessi hlutinn af þeim hluta útsvaranna, sem því ber svo að þessar fasteignir draga sveitarfélögin niður í þeim skilningi. Og samkv. framfærslulögunum frá síðasta þingi þá á, þegar farið er að bæta sveitarfélögunum upp nokkurn hluta þeirra útsvara, sem eru fram yfir meðaltal útsvara í landinu, að reikna út til fasteignaverðs fasteignir í viðkomandi sveit. Því hærra sem það er, því lægri verður hluti viðkomandi sveitarfélags í hinum almennu uppbótartekjum, og verða þessar fasteignir því til þess þar líka að draga niður viðkomandi sveitarfélög. Ég efast einnig um, ef reikningarnir væru gerðir upp, að þá væri mikill hagur að því almennt fyrir sveitarfélögin að fá slíkar eignir inn í sveitirnar. Og ég er sannfærður um, að þeir menn, sem hafa ráð á því að byggja sumarbústaði og eiga þá, munu líka telja sig hafa ráð á því að greiða þann beina skatt, sem fellur á sveitarfélagið vegna þeirra sjálfra. Hv. þm. talaði um, að það hefði verið gerð tilraun til þess að leggja útsvar á húseignir manna, sem ekki eru búsettir hér í Rvík, en það hefði ekki staðizt dóm. Ég veit ekki betur en að það hafi fallið dómur um, að maður væri útsvarsskyldur hér, sem á heima annarsstaðar. En hann á hér húseignir, en hefir ekki neina aðra beina atvinnu hér. Þessi dómur er nýlega fallinn í hæstarétti. Annars er þetta aukaatriði og kemur ekki við hinum venjulegu útsvarslögum. Hér er eingöngu um það að ræða, að sýslusjóðsgjaldið, sem lagt er á þessar byggingar, komi á herðar þeirra, sem byggingarnar eiga og hafa þeirra not, en ekki þeirra, sem hafa engar beinar tekjur af þeim.