20.03.1936
Neðri deild: 29. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 546 í B-deild Alþingistíðinda. (719)

18. mál, útsvör

*Frsm. (Garðar Þorsteinsson):

Þeir ber saman um það, hv. 1. þm. Árn. og hv. þm. Mýr., að hér sé um gjöld að ræða, sem eru mjög lág, og þeir telja, að þeir menn, sem vilji vinna það til að leggja í nokkurn kostnað til þess að geta komizt með fjölskyldu sína upp í sveit, myndu ekki telja það eftir sér að greiða þessi lágu gjöld. Þessi gjöld geta verið misjafnlega lág eða há, en mér skilst þó, að ef það eiga að vera rök í þessu máli, að gjöldin séu svo lág, að einstaklinga, sem hafa lagt í kostnað við að byggja sumarbústaði. muni ekki um að greiða þau, þá hljóti það líka að vera rök, að sveitarfélögin muni ákaflega lítið um að greiða þau (BÁ: Safnast þegar saman kemur). Það má vera, að svo sé. En það, sem hv. þm. gleymir, er það, að þeir, sem eiga sumarbústaði frá Rvík og Hafnarfirði, greiða ekki svo lítið gjald beinlínis til þeirra, sem eiga grunninn. Ég hygg, að það séu borgaðar frá 17–27 kr. á ári í grunnleigu. Ég get nefnt dæmi, þar sem grunnurinn kostar 50 kr., 100 kr. og upp í 180 kr. Þetta getur auðvitað verið misjafnt, og fer það eftir því, hvar grunnurinn er. Ef svo er, að grunnleigan er frá 50–180 kr., þá er það ekki svo lítil upphæð, sem þeir, sem eiga sumarbústaðina, greiða til þeirra, sem í sveit eiga heima og eiga þessi lönd. Og það er vitanlega sjálfsagður hlutur, að við niðurjöfnun útsvara í viðkomandi sveit myndu útsvör þeirra manna, sem hafa tekjur af því að leigja slíka grunna, en þeir eru venjulega litlir að flatarmáli og annars lítið notaðir af eigendum jarðanna, verða þeim mun hærri, sem næmi þeirri upphæð, sem þeir hefðu annars orðið að greiða í sýslusjóðsgjald af húsunum. Það fer því í sveitarsjóðinn, sem getur þó ekki beinlínis tekið þetta gjald af fasteigninni, sem um er að ræða. Sveitarsjóðurinn fær þetta á annan veg, sem sé með því, að eigandi sumarbústaðarins greiðir svo og svo láa leigu til þess, sem á landið, en hann verður svo að borga hærra útsvar. Hv. þm. Mýr. hefir alveg gleymt þessum lið. Auk þess er það líka á annan hátt til hagsmuna fyrir sveitarfélögin, að lýsingar komi í sveitirnar og því fólki fjölgi, sem hefir viðskipti við bændur þar í kring. Hitt er annað mál, að þeir, sem þar búa og eiga sumarbústaðina, myndu vitanlega ekki leggja í slíkan kostnað, ef þeir hefðu ekki einhvern hag af því sjálfir. En þeir hafa ekki fjárhagslegan gróða af því. Ég hygg, að það sé enginn maður, sem fær sér sumarbústað af því, að hann hafi fjárhagslegan gróða af því. Þeir verða venjulega að hafa sína íbúð ónotaða og borga eftir hana fulla leigu, en ef þeir eiga hús, þá hafa þeir engan arð af íbúð sinni yfir sumarið. Auk þessa verða þeir að kaupa sumarbústaðinn eða leigja hann, en slík leiga nemur verulegri upphæð, og það er þess vegna ekki hagur fyrir þá að öðru leyti en því að dvelja í sveit í hollara lofti. Það er venjulega gert vegna barnanna. Hv. þm. Mýr. veit, að fátækir fjölskyldufeður leigja sér ekki sumarbústaði til þess að spara sér húsaleigu eða njóta ódýrari matarkaupa. Margir stunda líka atvinnu í Rvík og verða því að kaupa sér far með þeim farartækjum, sem ganga til þessara sumarbústaða, og þau útgjöld eru ekki heldur svo lítil. Ég hygg, að hv. þm. Mýr., sem á land undir sumarbústöðum, viti, að sumir, sem þar búa verða að fara daglega til Rvíkur að morgni og heim aftur á kvöldin. Ég hygg, að kostnaður við það muni vera upp undir 2 kr. á dag. Það er því síður en svo, að það sé fjárhagslegur gróði fyrir þessa menn. Það er því aðeins atriði sem menn leggja upp úr vegna betra loftslags og að það er að öllu leyti heilsusamlegt fyrir fjölskyldur manna. Hagurinn er hinsvegar eingöngu þeirra megin, sem eiga löndin og fá greidda háa leigu fyrir þau, auk þess sem þeir fá viðskipti við þá, sem þar búa. Það er því ósanngjarnt að gera þeim mönnum, sem leggja á sig fjárhagslegur kvaðir til þess að koma börnum sínum í heilsusamlegra loft skylt að greiða bein útsvör til viðkomandi sveitar. Útsvarið fá sveitarsjóðirnir vegna hinna auknu tekna þeirra, sem eiga löndin og hafa leigu eftir þau. Þó að þessi gr. sé orðuð svo, að það eigi að takmarkast við þessi auknu útsvör viðkomandi sveitarsjóðs, þá er það þannig venjulega að þegar tekið er í litla fingur. þá er líka kippt í aðra fingur. Hér er þetta að vísu takmarkað við þessa reglu, en í framkvæmdinni yrði henni væntanlega ekki stranglega fylgt, vegna þess að það er vandfundið, hve mikið ætti að greiða í þessu tilfelli. Í öðru lagi er það víst, að önnur sveitarfélög, sem þannig stæði á um, að þar væru húseignir manna, sem annars væru ekki útsvarsskyldir þar, myndu vitanlega koma á eftir og heimta, að eigendur þessara húseigna, sem sveitarfélögin hefðu annars verulegar tekjur af, ættu að greiða gjald til viðkomadi bæjar- eða sveitarsjóðs. Þó að þetta sé í þessu tilfelli fjárhagsatriði þá er það líka stefnuatriði, sem hlýtur að draga þann dilk á eftir sér, að önnur sveitarfélög fara sömu leið.

Þar sem hv. þm. Mýr talaði um, að þetta hefði áhrif á skiptingu útsvaranna, þá er það svo lítilfjörlegt atriði, að ég efast um, að hann geti reiknað það út í aurum, þó hann gæti nefnt dæmi um skipingu útsvara milli Mosfellssveitar og Rvíkur, auk þess sem sú regla er ekki framkvæmanleg eftir bókstaf laganna. Það liggur undir mati ríkisskattanefndar, hvernig þessi hluti skiptist. (BÁ: Það fer eftir vissum formúlum). Já, en þær eru ekki svo einskorðaðar, að það megi ekki breyta um eftir því, sem á stendur. En auk þess eru þessar reglur um skiptingu útsvaranna ekki svo mjög heppilegar.

Að síðustu skal ég geta þess viðvíkjandi þeim dómi, sem hv. þm. minntist á, að útsvarsheimildin byggðist ekki á því, að það væri heimilt að leggja á fasteignina, heldur á því, að viðkomandi maður var ekki talinn eiga heimili annarsstaðar en í Reykjavík. Og á því var dómurinn byggður.