07.04.1936
Sameinað þing: 11. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

1. mál, fjárlög 1937

*Hannes Jónsson:

Hæstv. forsrh. var að kvarta yfir því, að ekki hefði verið lögð fram skrá yfir þá bitlinga, sem stj. hefði veitt, síðan hún tók við. Ég verð að segja það, að það er nokkuð stíf krafa til andstöðuflokkanna að þeir leggi þá skrá fram og ræði hana lið fyrir lið við útvarpsumræður, því að sá tími, sem þeim er ætlaður, mundi ekki endast til slíks upplesturs. Ég hefi líka litið svo á, að þetta væri liðið og yrði ekki aftur tekið.

Fyrir þjóðinni liggja nú mikil vandamál, sem þurfa skjótrar úrlausnar. Ég hefi gefið stjórnarflokkunum tækifæri til þess að láta í ljós skoðun sína á einu mesta vandamáli þjóðarinnar. Þetta mál er gengismálið. Jafnaðarmenn hafa lýst yfir andstöðu sinni við málið, og mér hefir tekizt, að sýna Framsfl. berstrípaðan í áhugaleysi sínu og úrræðaleysi í þessu mikla vandamáli þjóðarinnar, sem kjósendur þeirra úti um landið krefjast af þeim, að þeir fái leyst með hagkvæmri niðurstöðu fyrir framleiðslu landsmanna. Þeir hafa sýnt, að til þeirra verður ekki neitað um úrlausn þessa máls. Ég skal, til þess að vera ekki ósanngjarn við ríkisstj., láta niður falla, þó það væri freistandi, að telja nokkuð af þeim bitlingum, sem mest eru áberandi, en vil aðeins taka nokkur dæmi, sem þegar eru kunn, svo að það er ekki hægt að segja, að það sé komið að baki þeirra með þau.

Ég vil nefna fiskimálanefnd, sem þegar er búið að tala mikið um og viðurkennt er, að sé þarflaus, ef ekki beinlínis skaðleg fyrir landsmenn. Það má nefna skipulagsnefnd, sem ekki er vitað, að hafi neitt nýtilegt verk unnið, en hefir látið undir höfuð leggjast að hlíta þeim ráðum, sem útlendur fræðimaður hefir gefið henni til lausnar á viðskiptamálum og fjármálum þjóðarinnar. Þessi dæmi um einstaka menn má tilfæra: 2. þm. Reykv. hefir 32 þús. kr. á ári með öllum sínum bitlingum, þm. S.-Þ. hefir 20 þús. kr. á ári í laun með öllum sínum bitlingum.

Guðbrandur Magnússon forstjóri hefir 18 þús. kr. á ári með öllum sínum bitlingum og 2. þm. N.-M. hefir 15 þús. kr. á ári með öllum sínum bitlingum. Þetta eru allt tölur, sem fram hafa komið áður, og ekki hafa verið rengdar. Það er gott að taka þetta til samanburðar við það, sem hv. þm. S.-Þ. sagði, að bændastéttin væri sú bezt stæða stétt í landinu. Skyldu þeir geta jafnast við þessar bitlingaskjóður stj.? Ég býst við, að þeir þættust góðir, þó þeir hefðu ekki nema litinn hluta af þeim launum, sem þessir menn taka úr ríkissjóði.

Hæstv. atvmrh. minntist á það, að verkamönnum væri ekki neinn hagur í því, að bændur flosnuðu upp og kepptu við þá um vinnu á mölinni. En hvað hefir ríkisstj. gert á undanförnum árum? Hún hefir ýtt undir bændur að hætta búskap og fara í daglaunavinnu með því að hækka daglaunin hjá verkamönnum svo mikið, að það er langt frá því, að atvinnuvegirnir geti komizt í hálfkvisti við þá launagreiðslu, þó að allt væri látið af höndum rakna, sem þessir atvinnuvegir hafa yfir að ráða. Þeir hafa þarna verið að vinna móti betri vitund eftir því, sem hæstv. ráðh. hafa gefið yfirlýsingu um. Bændurnir vilja nú komast til kaupstaðanna og njóta þar atvinnubótavinnu og vegavinnu og taka hana frá þeim, sem svo þurfa að leita úr kaupstöðunum til sveitanna til þess að afla sér atvinnu. Þetta er stefna stj., og hún getur ekki leitt til neins góðs fyrir afkomu þjóðfélagsins.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég get verið ánægður með umræður þær, sem farið hafa fram. Ég hefi neytt stj. til þess að sýna afstöðu hennar til gengismálsins og þjóðinni getur ekki blandast hugur um, hversu óheppileg sú afstað er. Ég get svo boðið þeim, sem hlýtt hafa góða nótt og sagt eins og hæstv. ráðh., að ég vona, að þeim hafi orðið þessar umræður til góðs og að þeir hafi tekið sína afstöðu gagnvart ríkisstj. í samræmi við yfirlýst getuleysi hennar um lausn stærstu vandamála þjóðfélagsins.