20.03.1936
Neðri deild: 29. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (722)

18. mál, útsvör

*Hannes Jónsson:

Það er lítilsháttar aths. út af brtt. hv. þm. Mýr. á þskj. 101, sem hefir mætt hér nokkrum andmælum, er mér virðast þó ekki að öllu leyti á rökum byggð. Ég hefði e. t. v. kosið, að brtt. væri að nokkru leyti öðruvísi orðuð, en það skiptir ekki miklu; aðalatriði er, að það komi fram, sem með till. er ætlað. Og ef flett er upp í 1. um sýsluvegasjóði frá 1933, sér maður, að til hins nákvæmlegu sama er ætlazt með þeim l. Samkv. þeim er hægt að innheimta sýsluvegasjóðsgjald hjá eigendum slíkra fasteigna, þar sem sýsluvegasjóðssamþykktir eru, svo að það sýnist samræmi í að ákveða, að þar sem ekki eru sýsluvegasjóðssamþykktir, sé hægt að innheimta þessi gjöld líka hjá hlutaðeigandi aðiljum. Ég sé því ekki ástæðu til að mæla gegn þessari brtt. Ef rétt er að láta húseigendur greiða gjöld sem þessi, þar sem sýsluvegasjóðssamþykktir hafa verið gerðar, liggur í hlutarins eðli, að ekki er ástæða til að undanskilja aðra frá því, þó að þeir eigi hús á stöðum, þar sem slíkar samþykktir hafa ekki verið gerðar. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa upp part af 2. gr. nefndra l.: „Nú á einhver fasteign í hreppi eða kauptúni aðra en jörð í fastri ábúð, eða jarðarhluta, en er þar ekki útsvarsskyldur, eða greiðir þar ekki útsvar eftir sömu reglum og aðrir, og er hreppsnefnd þá heimilt að krefja eiganda um vegaskattinn sem þúsundgjald af eigninni eftir því, sem hann er ákveðinn að lögum.“ Það hefði verið nákvæmlega jafneðlilegt að láta gjald sem þetta lenda á hreppunum, en við þessa lagasetningu hefir það þó ekki þótt sanngjarnt og því sleginn sá varnagli, að hægt væri að innheimta þetta gjald hjá hlutaðeigandi mönnum sjálfum, virðist í fullu samræmi við það, að önnur gjöld, sem verða til þess að íþyngja sveitarfélögunum á sama hátt, verði einnig endurgreidd af hlutaðeigendum, eins og gert er ráð fyrir í þessari till. Það verður að taka tillit til þess, að það er ekki hægt að losa menn undan þessum kvöðum á vissum stöðum, eða þar sem sýsluvegasjóðssamþykktir eru; því er hér að mínu áliti um samræmingu að ræða, en ekki neitt, sem ekki hefir áður átt sér stað. Ákvæði þessara laga er alls ekki bundið við vissa tegund fasteigna, eins og sumarbústaði, og því varla hægt að fara að taka þær eignir sérstaklega út úr, enda sýnist mér það ekki á frambærilegum rökum reist. Ég sé því ekki ástæðu til þess að láta þessa brtt. sæta annari meðferð við þessa lagasetningu heldur en sömu ákvæði hafa áður sætt í sambandi við afgreiðslu sýsluvegasjóðslaganna.