07.04.1936
Sameinað þing: 11. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

1. mál, fjárlög 1937

*Þorsteinn Briem:

Herra forseti! Ég vil svara hæstv. fjmrh. nokkrum orðum út af því, að hann var að reyna að bera á móti því, að það hefði verið neitað um eða dregið úr leyfum á netum og byggingarefni og öðru til smíða. Ég þarf ekki að svara þessu mikið. Ég get vitnað til manna, sem ég talaði við í dag, og get ég nefnt þá með nöfnum fyrir hæstv. ráðh. að umr. lokinni. Ég get nefnt útvegsbændur á Akranesi, sem urðu fyrir barðinu á þessu og fengu ekki net, þegar þeir þurftu þeirra til þess að ausa síldinni upp úr sjónum í sumar. Hann getur talað við tvo bændur, sem ég skal nefna fyrir honum, og spurt þá sjálfa um þetta. Annar þeirra varð að bíða í mánuð eftir því að fá net, á meðan veiðin stóð sem hæst. Annar báturinn beið hér við bryggju í mánuð og 2 daga eftir því að fá net, sem hann átti, út úr afgreiðslunni. Báðir þessir bátar urðu sem sagt að bíða heilan mánuð. Um Vestmannaeyjar er hið sama að segja, því ég hefi talað við kunnuga þar. Svörin eru yfirleitt allsstaðar þau sömu, að sumstaðar hafi verið dregið úr leyfunum, en sumsstaðar sé svo mikill dráttur á að fá þau, að það er stórbagalegt. Allir vita, að net vantar núna. Ég veit af veiðarfæraverzlun, sem hefir beðið eftir svari upp á net í fimm eða sex vikur, og ekki fengið það enn. Og þeir, sem hlut eiga að máli, segja, að það virðist vera svo, að stj. ætlist til þess, að síldin og þorskurinn eigi að bíða eftir hinum seinu ákvörðunum þeirrar n., sem stj. hefir skipað í þessum málum.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta. Hæstv. ráðh. getur gengið úr skugga um þetta með því að tala við þá menn, sem hér eiga hlut að máli.

Það var auðheyrt á hæstv. forsrh., að hann var hræddur við það, að bændaflokksmenn ættu að tala á eftir sér, en ég skal leysa hann frá ótta. Ég skal ekki vera harðhentur á honum. Hann talaði um, að samsteypustjórnin hefði ekki haft áhugamál. En hún opnaði markaði fyrir kjötið, sem voru algerlega lokaðir í báðum aðalmarkaðslöndunum, þegar hún tók við völdum. Samsteypustjórnin kom til leiðar þeirri mestu hjálp, sem bændum hefir nokkurn tíma verið veitt á einu þingi. Hann vildi halda því fram, að það hefði verið hans nótum í Framsfl. að þakka, að þetta gekk fram. Ég get fullvissað hann um, að svo var ekki. Framkvæmdin í því kom frá þeim mönnum, sem á sínum tíma stofnuðu og eru enn í Bændafl. Ég skipaði kreppunefndina áður en ég talaði um það við nokkra menn aðra en þá, sem eru í Bændafl., og Tryggva heitinn Þórhallsson. Menn geta lesið Tímann frá 1932 og séð, hvernig þá var talað um kreppuhjálpina. Ég man þegar núv. hv. þm. S.-Þ. talaði um það sem einhver ósköp, ef hægt væri að verja 10 millj. kr. í kreppuhjálp, en samsteypustjórnin fékk l4 millj. kr. í kreppusjóðinn. Og þrátt fyrir þetta leyfir hæstv. forsrh. sér að segja, að við í samsteypustjórninni höfum verið knúðir til þess að gera þetta af hans nótum.

Út af því, sem hæstv. forsrh. er alltaf að klifa á, þá get ég fullvissað hann um það, að við bændaflokksmenn munum framvegis, eins og hingað til, halda fullu sjálfstæði okkar bæði gagnvart framsóknarmönnum, alþýðuflokksmönnum og sjálfstæðismönnum. Þeir munu berjast á báðar hendur, en þeir munn ekki hafa það eins og Framsfl., sem ekki getur hugsað sér sveitamannaflokk, nema þannig að hann hafi eitthvað til þess að halla sér upp að.

Þessar umr. eru nú að lokum liðnar, og vil ég þá biðja þá, sem á þær hafa hlustað, að athuga, hvernig þær hafa farið fram. Ég vil biðja menn að athuga orðaskiptin milli flokkanna um nokkur þau atriði, sem um hefir verið deilt. Ég vil biðja menn að athuga, hvort þær upplýsingar hafa verið hraktar, sem við bændaflokksmenn höfum gefið um deilumálin. Ég vil biðja menn að taka eftir umræðunum um kjötlögin, og festa sér í minni umræðurnar um framkvæmd mjólkurlaganna. Og ég vil biðja menn að athuga sérstaklega, hverju því hefir verið svarað, þegar ég sýndi fram á það misrétti sem hefði átt sér stað milli mjólkurbúa í hinum ýmsu héruðum. Ég vil biðja menn að athuga, hverju því hefir verið svarað, þegar minnzt var á loforð um 22 aura hagnað til bænda. Ég vil biðja menn að athuga, hversu margir bændur hafa fengið þessa háu upphæð, sem má þakka framkvæmd mjólkurlaganna, sem var 1¾ eyris, og ég vil biðja menn að athuga það tap, sem bændur í einstökum héruðum telja sig hafa orðið fyrir vegna mjólkurlaganna. Ég vil biðja menn að athuga hverju ríkisstj. hefir svarað, þegar hún hefir verið minnt á þær lækkanir, sem hún gerði á styrkjum til ýmsra búnaðarframkvæmda frá því, sem var í tíð samsteypustjórnarinnar, svo sem styrkjunum til ræktunarsjóðs, sandgræðslu, búfjárræktar, sýslusjóðavega, til kaupa á erlendum áburði, til Búnaðarfélags Íslands og búnaðarsambandanna. Ég vil biðja menn að athuga, hverju því hefir verið svarað, þegar því hefir verið haldið fram, að bæjar- og sveitarfélögin væru að sligast. Ég vil biðja menn að athuga, hvort því hefir verið svarað með rökum eða með brigzlunum, þegar talað hefir verið um vasandi atvinnuleysi. Ég vil biðja menn að athuga, hvort það hefir verið borið á móti því, að í landinu hafi verið drukkið sem svarar landverði jarða í fimm sýslum siðástliðið ár. Ég vil biðja menn að athuga, hvort því hefir verið svarað nægilega, þegar á það hefir verið bent, hversu mikið öryggisleysi er hjá ýmsum atvinnurekstri, svo að þeir, sem vilja byrja á nýjum atvinnurekstri, þora það ekki, þar sem þeir eiga yfir höfði sér aðra eins óvita stjórnarstefnu eins og kemur fram hjá ríkisstj. í ýmsum málum. Ég vil biðja menn að athuga, hvort því hefir verið svarað, sem sagt hefir verið um olíuverðið. Ég vil biðja menn að athuga, hvað sagt hefir verið um jarðræktarfrv. okkar bændaflokksmanna, sem er tilraun til þess, að hjálpa þessari atvinnustétt til þess að lækka framleiðslukostnaðinn svo, að landbúnaðurinn geti borið sig og að hann geti með tímanum selt þær afurðir, sem hann framleiðir, fyrir lægra verð heldur en hann getur nú og heldur en hann þyrfti að fá nú til þess, að það gæti orðið þjóðfélaginu í heild til góðs. En þeir peningar, sem til jarðræktar fara, koma allri þjóðinni að notum. Það er þess vegna hin mesta fjarstæða, sem haldið hefir verið fram nýlega, að jarðræktarstyrkurinn væri gjafir.

Hæstv. forseti segir, að tíminn sé kominn, og skal ég ekki brjóta skipun hans. Þessum umr. er nú lokið. Ræður hafa verið fluttar af nokkru kappi, eins og oft vill verða, þegar í odda skerst. En ættjörðinni vilja allir góðir menn þjóna, þó að sjónarmiðin séu ólík. Ég vil enda þessar umr. með þeirri ósk, að þjóðinni og hverju barni hennar megi vel farnast. — Góða nótt.