25.03.1936
Neðri deild: 33. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (733)

18. mál, útsvör

Páll Zóphóníasson:

Ég benti á það við 2. umr. þessa máls, að ef brtt. hv. þm. Mýr. væri samþ., þá nær hún lengra en hann ætlast til. Hún nær til húsa, sem menn eiga í öðrum sveitarfélögum þó að þau séu leigð þar út, en það er ekki ætlun hans, að það sé farið að leggja á þessar eignir, því að það borga þeir, sem húsin hafa til afnota. Ætlun hans er aðeins að ná til þeirra sumarbústað., sem eru í einstökum hreppum og eru orsök til þess, að viðkomandi sveitarfélög fá á sig vegna þeirra meira sýslusjóðsgjald, og þetta aukna sýslusjóðsgjald næst með minni till. Ég efast um að menn fari að reyna að leigja hús sín til þess að sleppa hjá þessu gjaldi. En ef það er gert, þá er kominn fastur maður í sveitina, sem ber sitt útsvar. Og er það í samræmi við ýmislegt annað, að svo sé. Það er t. d. leyfilegt að leggja útsvar á þann, sem hefir landsnytjar í sveit, þó að hann byggi jörðina ekki að fullu, en það er ekki leyfilegt að leggja á hann vegna jarðar, sem hann á í öðrum hreppi, hafi hann ekki landsnytjar. Í samræmi við þetta er lagt útsvar á mann, ef hann á hús og notar það sjálfur, en ekki ef hann á hús og leigir það út en býr í annari sveit. — Ég vil þess vegna vona, að brtt. mín verði samþ., því að ef brtt. hv. þm. Mýr. er samþ., þá nær hún út yfir það, að hægt er að leggja útsvar á mann á Blönduósi, ef hann á hús þar sem hann leigir út þó að hann sé sjálfur búsettur í Reykjavík. Ég hygg, að hann hafi ekki ætlazt til þess með brtt. sinni, og ég verð þess vegna að leggjast á móti því, að hún verði samþ.