25.03.1936
Neðri deild: 33. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 558 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

18. mál, útsvör

Bjarni Ásgeirsson:

Ég skal ekki fara langt út í þetta máli Það er orðið töluvert rætt. En þessi ýtarlega og að mörgu leyti rétta ræða hv. þm. V.-Sk. snerti í sjálfu sér lítið mína till. vegna þess að með henni er ekki farið fram á að raska neitt hinum venjulega grundvelli útsvarslaganna. Eins og tekið hefir verið fram, er hér aðeins farið fram á að taka af umræddum eignum þessi föstu, ákveðnu gjöld, sem á þeim hvíla. Það mun yfirleitt vera venjulegt að taka af eigendum húseigna öll sérstök gjöld, sem við þær eru miðuð, þó þeir séu ekki útsvarsskyldir á staðnum. Það er alls ekki meiningin að fara að seilast eftir venjulegum útsvörum til þessara manna, aðeins þessu sérstaka gjaldi. Það getur verið aukaatriði, í hvaða l. þetta ákvæði er sett; ég sé ekki annað en það megi alveg eins koma inn í útsvarslögin eins og t. d. sveitarstjórnarlögin.

Það, sem hv. 2. þm. N.-M. sagði út af sinni brtt., get ég ekki viðurkennt, því að í till. minni, eins og hún er orðuð nú, er eingöngu talað um sérstakar húseignir, eins og sumarbústaði, með öðrum orðum, sem eru sama eðlis eins og sumarbústaðir. Það getur ekki átt við venjuleg íbúðarhús.

Annars skal ég ekki lengja umr. meira, en verð að svo komnu að halda fast við mína brtt., eins og hún er borin fram.