08.04.1936
Efri deild: 47. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 560 í B-deild Alþingistíðinda. (742)

18. mál, útsvör

*Frsm. (Páll Hermannsson):

Það eru engar stórvægilegar breyt. á útsvarslögunum, sem felast í þessu frv., og þegar þetta frv. var lagt fram, fylgdi því ýtarleg grg., svo ég tel ekki þörf á að fjölyrða um það nú. — Ég skal þó nefna helztu breyt.

Í 1. gr. er því slegið föstu, að leggja megi útsvar á útlendinga á sama árs tekjur, eða þær tekjur, sem þeir fá á því ári; annars er það venja að leggja á tekjur næsta árs á undan, eins og öllum er vitanlegt. Þessi breyt. er gerð til öryggis um, að útsvör þessara manna innheimtist, ef þau eru lögð á, en oft vill verða svo, að þeir flytji burtu aftur, og næst þá ekkert af þeim. Jafnframt er því, slegið fúsu, að þetta ákvæði nær aðeins til erlendra manna. — Í 5. gr. er gert ráð fyrir, að skjóta megi til ríkisskattanefndar þeim úrskurðum, sem felldir eru af skattanefndum, og nær heimild þessi til beggja aðilja, hreppsnefnda og gjaldþegna. — Í 8. gr. er sett ákvæði um, að hjón beri ábyrgð á útsvarsgreiðslum hvors annars, ef þau búa saman, þegar útsvarsálagningin fer fram. Þetta hefir áður verið talið vafasamt. — Í 9. gr. er nýmæli, er mælir svo fyrir, að ríkisstj. geti sett í reglugerð ákvæði um, að kaupgreiðendur séu skyldir til að halda eftir af kaupi þeirra, er skulda útsvar.

Þetta ætla ég, að séu aðalbreytingarnar, og í 11. gr. er svo fyrir mælt, að þegar lög þessi hafi öðlazt staðfestingu konungs, þá skuli fella texta þeirra ásamt öðrum lögum, sem gerð hafa verið til breyt., inn í útsvarslögin frá 1926 og prenta þau síðan upp í heilu lagi. Því var hreyft í Nd., að búast mætti við, að gera þyrfti fleiri breyt. á þessum l. en hér er gert, og á þetta var einnig bent í allshn. þessarar d. Allshn. leggur þó engan dóm á, hvort svo muni verða, en hún taldi rétt að halda þessu opnu, þannig að heimila ráðh. að láta prenta lögin upp, en hafa ekki beint skylduákvæði þar um. Er þá hægt að sleppa niður prentun, ef vænta má nýrra breyt. bráðlega, eins og heyrzt hefir, að megi vænta, ef mþt. sú, er skipuð var til að gera till. um tekjuöflun bæjar- og sveitarfélaga, tekur þessi l. til athugunar.

Ég vil svo að öðru leyti geta þess, að allshn. er sammála um að leggja til, að frv. verði samþ.