08.04.1936
Efri deild: 47. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 561 í B-deild Alþingistíðinda. (745)

18. mál, útsvör

Þorsteinn Þorsteinsson:

Það var á síðasta þingi öndverðu, að ég kom fram með frv. til l. um breyt. á útsvarslögunum, og var það samskonar breyt. og nú liggur fyrir á þskj. 311. Þá var máli þessu vísað til allshn., er tók það til athugunar, og af því leiddi, að fram kom þáltill. um, að stj. skyldi leggja fyrir næsta þing frv. til l. um heimilisfang, og var gert ráð fyrir, að það fæli í sér ákvæði frv., eða þessarar brtt. Frv. þetta kom ekki þá fram, eins og ætlast mátti til. en hæstv. atvmrh. lofaði, að frv. skyldi liggja fyrir þessu þingi, og réð mann til að semja það. En þar sem þetta frv. er ekki komið fram enn, þá hefi ég viljað nota tækifærið úr því á annað borð á að gera breyt. á útsvarsl., og bera fram þessa brtt., þar sem mjög nauðsynlegt er, að slík breyt. verði gerð og nái sem fyrst fram að ganga.

Síðan frv. mitt kom fram, hefi ég séð í sýslufundagerðum ýmsum óskir um, að samskonar breyt. yrði gerðar á útsvarsl. og farið var fram á í nefndu frv. mínu, svo að ég geri ráð fyrir, að það sé víðar en í mínu kjördæmi, sem menn vilja fá skýrari ákvæði um þetta. Enda hefir það sýnt sig á undanförnum árum, að þetta er plága fyrir sum sveitarfélög, er hafa þurft að leggja á há útsvör, og þar hefir farið svo, að sumir hærri gjaldendurnir hafa flúið þá sveit á þann hátt, að þeir hafa talið sig til heimilis í annari sveit, en þó lítið eða ekkert dvalið þar, heldur verið í sömu sveitinni áfram og stundað þar sína atvinnu.

Það má segja, að með því að leita dómstólanna, þá megi fá þetta leiðrétt, en það eru mörg hreppsfélög, sem hika við að fara þá leið, því hún er allkostnaðarsöm, og oft jafnvel dýrari en það, sem fæst. Þess vegna er ekki lagt á þessa menn og þeir hafa sloppið sumir alveg, og hefir þetta leitt til svo stórra vandræða, að sumir leysa sig alveg undan þeirri skyldu að eiga lögheimili. — Ég segi nú ekki, að þessi brtt. kippi þessu algerlega í lag, en mjög ætti þó að verða til bóta slík breyt á l., og menn ættu fremur að kjósa sér lögheimili eftir en áður. — Ég held, úr því sem komið er, að það sé illa farið, að ekki skuli vera til ákvæði í þessa átt. Auðvitað má breyta þessari till., ef henni yrði nú vísað til allshn. og hún teldi henni í einhverju ábótavant; ég er ekkert á móti því. Mér þætti í rauninni heppilegast, ef n. vildi athuga þessa till., að afgreiðslu málsins yrði frestað og það tekið út af dagskrá.