15.04.1936
Efri deild: 49. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 562 í B-deild Alþingistíðinda. (750)

18. mál, útsvör

*Frsm. (Páll Hermannsson):

Síðast þegar þetta mál var til umr., var það tekið út af dagskrá, sérstaklega vegna þess, að þá lá fyrir nýútkomin brtt. á þskj. 311 frá hv. þm. Dal. Var litið svo á, að það væri e. t. v. heppilegt, að allshn. fengi hana til athugunar, áður en hún fengi afgreiðslu hér. Nú hefir meiri hl. allshn. haft þessa till. til meðferðar á fundi sínum í gær. Ég var ekki á þeim fundi, var fjarverandi sökum lasleika, en mér hefir verið skýrt svo frá, að sá hl. n., sem mættur var, mæli gegn þessari till. Náttúrlega verður ekki komizt hjá því að veita því eftirtekt, að þessi brtt. er spor aftur á bak, er stefnir að því, sem áður var, þegar leyft var að leggja á menn víðar en í einum stað. En nú undanfarin ár hefir það verið aðalregla að leggja útsvarið á þar sem gjaldandi hefir átt heimili. — Ég veit, að þetta getur verið álitamál, en f. h. allshn. mæli ég gegn því, að brtt. þessi verði samþ.