15.04.1936
Efri deild: 49. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (754)

18. mál, útsvör

Magnús Guðmundsson:

Ég þarf ekki að svara hv. 1. þm. Eyf. mörgu. Það er náttúrlega rétt, að ekki voru allir sammála um breyt., sem gerðar voru á útsvarsl. 1926. Ég man, að hann barðist manna mest á móti sumum þessara breyt., og ég hygg, að menn viti, af hvaða ástæðu. Það var vegna eins hlut, úr kjördæmi hans, Siglufjarðar, sem sakaður var um að leggja nokkuð ranglátlega á utansveitarmenn, eða þótti ganga nokkuð langt í því efni. Þó að ekki væru allir sammála 1926, var ekki verra samkomulag þá en áður hafði verið, meðan verið var að breyta útsvarsl. Ég man, að á árunum 1916–l923 komst stöðugt fram breyt. á reglum um álagningu útsvara, og þetta er kannske ekki nema eðlilegt, því að þessi skattur er hár og mönnum því viðkvæmur.

Ég er hv. 1. þm. Eyf. alveg sammála um, að nauðsyn beri til að endurskoða lög þessi. Þau eru nú orðin 10 ára gömul, og er það næg ástæða, en ég vil ekki brjóta gegn þeirri meginreglu, sem útsvarslögin 1926 eru byggð á. Það mun rétt hjá hv. 1. þm. Eyf., sem hann sagði, að reglurnar um skiptingu útsvara milli sveita komu ekki að miklum notum, en ég er ekki viss um, ,ð það sé lögunum að kenna, heldur því, að bæjar- og sveitarstjórnir hafa ekki litið nægilega eftir, að þessum ákvæðum væri fylgt.