15.04.1936
Efri deild: 49. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 565 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

18. mál, útsvör

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég get verið hæstv. atvmrh. þakklátur fyrir það, að hann vill, að mál þetta fái einhvern framgang, og ég lít svo á, að þörf sé á endurskoðun, og hann hefir lofað, að það verði gert, og tel ég það vel farið, því mér er ljóst, að fleiri ákveðum útsvarsl. þarf að breyta en þessu, þó að ég flytji ekki um það brtt. nú.

Þá er annað, sem mig langar til að spyrja hæstv. atvmrh. um, hvort ekki sé von á, að hann leggi fram frv. til 1. um heimilisfang. Tel ég, að það þurfi að koma um leið og útsvarslagabreyt. Ég játa, að gerður hefir verið dálítill undirbúningur í þessu, en ekkert frv. hefir komið fram. Mér þætti vænt um ef séð yrði til, að það yrði ekki látið dragast til næsta þings.

Annars ætla ég ekki að þæfa þetta mál fremur en önnur, sem ég tala í. Ég verð að segja, að mér finnst það ekki skilorðslaust mæla gegn brtt., þó að hún kunni að brjóta í bága við þá reglu, sem sett var í l. 1926. Þó að sett sé einhver regla, þá er sjálfsagt að gera breyt., ef hún reynist ekki rétt. — Um hitt atriðið hjá hv. 1. þm. Skagf., að ekki sé annað en leita dómstólanna, er það að segja, að það er nú þannig, að eftir að dómar eru komnir, læra menn að smjúga í kringum lögin á þann hátt að forðast þann möskva, er dómarinn telur, að orðið hafi hinum að falli. Ég fell því ekki frá þessari brtt., sem ég hefi borið fram, því ég tel hana til stórra bóta.