30.03.1936
Neðri deild: 37. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (775)

80. mál, skotvopn, skotfæri o. fl.

*Guðbrandur Ísberg:

Hv. þm. Borgf hefir að nokkru leyti tekið af mér ómakið, því það voru nokkuð svipaðar fyrirspurnir, sem ég vildi bera fram. En hæstv. forsrh. gaf ekki fullnægjandi svar og upplýsti ekki sumt af því, sem ég hefði óskað að fá skýringu á.

Í 1. gr. frv. segir svo: „Dómsmálaráðherra skal heimilt að ákveða með reglugerð, hverskonar skotvopn, skotfæri og sprengjur skuli flutt til landsins og seld almenningi.“ Nú getur það valdið nokkrum misskilningi, hvað undir þetta heyrir, hvað við er átt með orðinu „skotvopn“, hvort þar er aðeins átt við vopn eins og skammbyssur og herriffla, eða hvort einnig er átt við venjulegar fuglabyssur og lélegar kúlubyssur, sem notaðar eru aðallega til að skjóta með sauðfé og aðrar skepnur (kúlubyssurnar), eða þá að þær eru notaðar til skotæfinga.

Mér virðist eðlilegt, að hér eins og erlendis sé sett löggjöf um það, að hafa megi eftirlit með því, hverjir hafi skammbyssur og riffla í vörzlum sínum. En hitt álít ég óþarft, að gera sérstakar ráðstafanir til þess að hamla því, að menn eignist fuglabyssur, ef þeir telja þess þörf, eða léleg tæki til þess að aflífa með skepnur sínar, þó að slík tæki megi í víðasta skilningi telja í flokki skotvopna. Ef það er meiningin með frv., að orðið „skotvopn“ eigi að takast í víðasta skilningi, þannig að það eigi að ná yfir öll skotfæri, sem eru einhverskonar áhöld til að skjóta með, þá er ég á móti því, að slík löggjöf sé sett, sem frv. þetta fjallar um, með því að slík löggjöf er algerlega óþörf.

Það er nú fyrst að segja um fuglabyssur, að menn ganga nú alls ekki með þær í vasanum, og er því engin hætta á að ofbeldismenn, innbrotsþjófar og aðrir slíkir séu líklegir til að nota þær sér til varnar, eða a. m. k. held ég, að sú hætta sé ákaflega lítil. Aftur er fjöldi manna, sem hefir af slíkum byssum nokkur not, og enn fleiri, sem nota þær til sports, þó að þeir noti þær ekki beinlínis sem atvinnutæki. Þessir menn allir nota fuglabyssur sínar nokkrum sinnum á ári, sumpart sér til framfæris og sumpart upp á sport. Má í þessu sambandi einnig nefna, að það er talin mjög góð æfing fyrir sjón og taugar að æfa skotlist.

Nú er svo ákveðið í þessu frv., að það skuli gilda sem aðalregla, að menn sýni skilríki fyrir því, að þeim sé gagnlegt eða nauðsynlegt vegna atvinnu sinnar að hafa vopn í vörzlum sínum, og álítist svo, að þeim sé það ekki gagnlegt, þá á yfirleitt ekki að veita þeim leyfi til þess. Hjá fjölda þeirra manna, sem nú þegar hafa aflað sér þessara tækja, eru þessar ástæður alls ekki fyrir hendi. Ef þessu ákvæði frv. á því að fylgja fram, þá verða þessir síðast töldu menn alveg að nauðsynjalausu að skilja sig við þessi tæki, — þeir verða að láta þau af hendi. Nú vil ég spyrja: Á að taka þessi tæki af þeim án endurgjalds? Ef svo er til ætlazt, þá er höggið nærri ákvæðum 62. gr. stjskr., um friðhelgi eignarréttarins. Eða á að taka þessi tæki af þeim og greiða þeim matsverð fyrir?

Loks eru í 3. gr. frv. sektarákvæði, þar sem ákveðið er, að brot gegn ákvæðum þessara l. og reglugerð, settri samkvæmt þeim, varði hvorki meira né minna en allt að 10 þús. kr. sektum. Lágmark sektarinnar er ekkert tiltekið. En það, hvað hámarkið er hátt, bendir til þess, að hér eigi talsvert há viðurlög að gilda almennt.

Ég vil nú endurtaka þá spurningu mína til hæstv. dómsmrh., hvort hann telur nauðsynlegt að láta þessa íhlutun hins opinbera ná til þessara algengustu tækja, sem ég hefi nefnt, sem eru fuglabyssur og fjárbyssur.