31.03.1936
Neðri deild: 38. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

80. mál, skotvopn, skotfæri o. fl.

*Jóhann Jósefsson:

Í grg. þessa frv. er vísað til grg., sem fylgt hafi samskonar frv., sem lagt hafi verið fyrir haustþingið 1935. Ég fór því að gá í þessa grg., en fann þar ekki annað en það, að þar sem aðrar þjóðir áskildu sér rétt til þess, að hafa eftirlit með innflutningi vopna, væri þetta nauðsynlegt hér. Það mun nú vera alveg rétt, að aðrar þjóðir vilji yfirleitt hafa eftirlit með innflutningi vopna. En hér hagar bara allt öðruvísi til, og það svo mjög, að í þessu efni er ekkert sambærilegt hjá okkur og öðrum þjóðum. Eða hefir hæstv. stjórn orðið þess áskynja, að hér hafi verið gerðar tilraunir með að flytja inn vopn? Á ég þar ekki við fjárbyssur eða fuglabyssur, heldur hvort gerðar hafi verið tilraunir til að smygla inn morðtólum. Hafi slíkar tilraunir átt sér stað, þá er vitanlega ástæða til að grípa til lagasetningar um þetta efni.

1. gr. frv. byrjar á því, að stj. geti sett reglur um, hverskonar skotvopn megi flytja til landsins, og í tilefni af þessu ákvæði vil ég spyrja hæstv. ráðh. lítilsháttar. (Rödd í salnum: Ráðh. er ekki viðstaddur). Úr því að svo er, get ég látið mál mitt falla niður í bili.