04.04.1936
Efri deild: 42. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

93. mál, Menningarsjóður

*Frsm. (Jónas Jónsson):

Þetta mál lá fyrir hér um bil eins og það er nú á þinginu í fyrra, og var þá samþ. í þessari d. áskorun til stj. um að undirbúa og leggja fyrir þingið frv. um þetta efni, og er 1. gr. þessa frv. óbreytt eins og hún var í þeirri þáltill. Svo hefir verið gerð á þessu lítilsháttar breyt., þannig að í 2. gr. þessa frv. er svo ákveðið, að stjórn menningarsjóðs skuli vera ein, í stað þess að nú eru í raun og veru þrjár stjórnir yfir honum. Aðalstjórn menningarsjóðs, sem þingið kýs, hefir yfirstjórnina á hendi, og er hún líka yfir þeirri sérstöku deild, sem lýtur að listum, en aftur á móti eru þrír menn yfir bókaútgáfunni, prófessorarnir í íslenzku og sögu við háskólann og íslenzkukennarinn við kennaraskólann, en kennararnir í náttúrufræði við menntaskólana í Rvík og á Akureyri og forstöðumaður náttúrugripasafnsins í Rvík hafa á hendi stjórn þess hluta sjóðsins, sem varið er til eflingar náttúruvísindum. Nú þykir það að mörgu leyti hentugra, að það sé ein stjórn yfir sjóðnum, og þess vegna er lagt til að fela stjórnina menntamálaráði Íslands. Í skýrslu þeirri, sem fylgir frv. frá stjórn menningarsjóðs, sést, að tekjur sjóðsins hafa síðustu 7 ár verið rúmar 50 þús. kr. að meðaltali á hverju ári. En síðustu tvö árin, sem þar eru talin, 1933–1934, hafa tekjur sjóðsins farið niður í um 20 þús. kr., og lítur út fyrir, að það haldist af ástæðum, sem ég þarf ekki að skýra mikið, því þær eru öllum kunnar. Sektir komu aðallega inn í sambandi við innflutning á sterkum vínum, en eftir að heimabruggið fór að magnast og sérstaklega eftir að leyfilegt var að flytja inn sterku vínin, þá minnkuðu sektirnar. Þar sem á hinn bóginn tekjur ríkisins hafa vaxið mjög mikið, ekki aðeins fyrir þá eðlilegu sölu, heldur vaxið fyrir það, að bruggið hefir mikið til horfið og leynisalan, þá má segja, að það sé ekki óeðlilegt, að þar sem þessi sjóður, sem stofnaður var fyrir sjö árum, tapar tekjum sínum, en landið fær margfaldar tekjur við það, að hin ólöglega sala hættir, þá fái hann tekjur sínar að nokkru leyti á þann hátt, sem í frv. segir. Ég hefi orðið þess var, að mörgum þeim, sem eru á móti víni, finnst það óviðkunnanlegt að láta þessa viðbót koma frá áfengissölunni, en þetta er gert víða, eins og bent er á í áliti menntamálaráðs, t. d. bæði í Danmörku og Noregi eru andlegar framfarir styrktar á þennan hátt. Ég vil engan veginn segja, að það væri ekki hægt að koma þessu öðruvísi fyrir, en aðalatriðið er, að hér á landi hefir á hinum síðustu 30 árum verið að vaxa upp vísir að listum, sem er að mörgu leyti álitlegur. Hér á landi munu vera um 20 listamenn, og eru flestir þeirra búsettir hér á landi, en þó eru einstaka búsettir erlendis. Þessir menn eru náttúrlega misgóðir; sumir eru ágætlega snjallir menn, en aðrir minni fyrir sér. En það má segja um þessa menn í heild, að þeir hafa auðgað þjóðlíf okkar um alveg nýjan þátt, sem þjóðin vill ekki missa. Þó að ekki sé tekið það, sem einstakir menn hér á landi hafa gert mikið að, en það er að prýða heimili sín með verkum eftir þessa menn, þá vil ég benda á það, að þegar ríkið þarf að sýna landið erlendis með einhverjum gjöfum, þá hefir ekki verið öðru til að dreifa en fara til málara okkar, og þannig var það núna nýlega, að ríkisstj. og alþingi leitaði til tveggja málara, Ásgríms Jónssonar og Jóns Stefánssonar, og fékk hjá þeim hluti, sem voru svo gefnir við sérstök tækifæri, þar sem sómi landsins lá við, að gefnar væru slíkar gjafir. Og ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að þessar tvær gjafir og aðrar, sem áður hafa verið gefnar, hafi orðið landi okkar til sóma. Og hefðum við verið illa settir, þar sem við nú viljum vera sjálfstætt ríki, ef við hefðum ekki haft neina góða listamenn til þess að koma fram fyrir landsins hönd út á við.

Síðan tók að harðna í ári fyrir öllum almenningi, þá hefir lífsbarátta þessara manna auðvitað harðnað, og fylgir hér á þessu sama þskj. áskorun frá nálega öllum helztu rithöfundum, listamönnum og náttúrufræðingum landsins. Ég hefi ekki veitt því eftirtekt, að það vanti undir þessa áskorun nema einn af þeim þekktu mönnum, sem eru búsettir hér, en sennilega hefir ekki náðst til hans. Þetta sýnir, að allir þessir menn skilja það, að þetta er mikilsvert atriði. Menn gætu hugsað sér, að þessir menn fengju styrki, eins og sumir hafa fengið, en það er að mörgu leyti óheppilegt. Það, sem vakir fyrir okkur í menntamálaráðinu, er, að við álitum það heilbrigðast, að þessir menn fái ekki styrki eða gjafir, heldur sé þeim launuð sú vinna, sem þeir inna af hendi, hvort heldur það er sem rithöfundar, listamenn eða náttúrufræðingar. Það vita allir, að náttúrufræðirannsóknir geta aldrei verið atvinnuvegur fyrir þá, sem þær stunda. Þegar Þorvaldur Thoroddsen rannsakaði landið í nærri 20 ár, þá var hann aðallega styrktur frá útlöndum, og þá styrki geta íslenzkir náttúrufræðingar ekki fengið nú. Eftir að við urðum sjálfstætt ríki, þá veitir Carlsbergssjóðurinn íslenzkum náttúrufræðingum ekki lengur sterk, og ekki heldur íslenzkum listamönnum, og hefir þannig frelsið, sem við allir viljum, þrengt kosti þessara manna. Ég þarf ekki að taka það fram, að það fylgir hér undirskrift þeirra fulltrúa, sem þingið hefir kosið í menntamálaráð, og standa þeir allir saman um þessar óskir. Einn þeirra, Kristján Albertson, er búsettur erlendis, en hann er þessu samþykkur, og er þetta með fyllsta stuðningi hans. Þetta mál er því ekki flokksmál. Fulltrúarnir í ráðinu eru frá aðalflokkunum þremur, en einn þeirra er utan flokka Og þessir menn eru allir sammála um það, að annaðhvort eigi að leggja þessa stofnun niður eða að hún verði að hafa eitthvað handa á milli. Sumir í fjvn. hafa meðal annars stungið upp á því, að það væri hægt fyrir sjóðinn að létta af Alþingi og ríkissjóði einhverjum gjöldum, sem hann hefir nú, og það er ekki nokkur vafi á því, að það gæti orðið. En við, sem erum í ráðinu, álítum, að það sé ekki hyggilegt að ætla menntamálaráði að hafa þá styrki, sem verða eftirlaun. Það, sem við viljum helzt, er, að menningasjóður geti starfað sem fyrirtæki, svo að hann gæti keypt fyrir landið ýmsa góða hluti af listamönnum og gæti gefið út bækur, sem þjóðinni er þörf á að fá, en ekki væru gefnar út annars. En við viljum ekki, að það sé lögð á sjóðinn dauð hönd, eins og var í raun og veru, þegar honum var í byrjun kreppunnar gert að skyldu að kaupa náttúrugripasafn Guðm. heitins Bárðarsonar, sem þyngir sjóðnum mikið síðan. Það er auðvitað merkilegt safn, en það hafði ekki neina augnabliksþýðingu fyrir sjóðinn. Það er óhætt að fullyrða, að menningarsjóður getur á hinn heppilegasta hátt, eða með því að veita listamönnum, náttúrufræðingum og rithöfundum atvinnu hverjum í sinni grein, létt nokkuð þá pressu, sem alltaf er á þinginu frá þessum mönnum. Þegar menn líta yfir nafnalistann, sem er prentaður sem fylgiskjal með frv., þá sjá menn, að tveir af þeim mönnum, sem þar eru, eru þeir Einar Kvaran og Einar Jónsson, en þeir munu hafa um 5000 kr. hvor frá ríkinu, og Einar Benediktsson mun hafa svipað. Það þarf því ekki annað en að líta á þetta til þess að sjá, að sú vinna, sem þjóðfélagið getur veitt hinum mönnunum, verður auðvitað ekki ríkuleg, þó að það verði, sem frv. gerir ráð fyrir, en hinsvegar er þarna möguleiki til þess, að þessir menn geti lifað. Og það er eins með alla þessa menn, náttúrufræðingana, listamennina og rithöfundana, að annaðhvort verður þjóðin að hlynna að þessum mönnum á þennan hátt, eða hún verður að geta þá alveg upp og sætta sig við, að hér séu ekki listir eða náttúruvísindi. Ég get sagt það, að það er mjög erfitt fyrir rithöfunda, og það tiltölulega góða rithöfunda, að fá bækur sínar gefnar út. Mér er kunnugt um þetta af viðtali við þessa menn, enda er ákaflega takmarkað, hvað hægt er að gefa út. Það sjá því allir hve litlar líkur eru til að halda þessum andlega þætti við, ef ekki er styrkur veittur af því opinbera.

Ég hygg, að enginn hv. þm. sé í vafa um, ef hann veit, hvað okkar listamenn hafa orðið að ganga í gegnum, að þeir hafi beinlínis soltið á sinni listamannsbraut; það er fyrir ótrúlega seiglu og alúð, sem þeir leggja í starf sitt, að þeir ekki gefast upp. Ég vil svo að lokum lesa hér upp álit hv. fjvn., sem menntmn. leitaði til. Það er dags. 3. apríl síðastl. og hljóðar svo með leyfi hæstv. forseta:

Hv. menntmn. Ed. hefir óskað umsagnar fjvn. um frv. til l. um breyt á l. nr. 54 7. maí 1928, um menningarsjóð. Eftir nokkrar umræður um málið samþ. n. á fundi sínum 2. apríl með 5 atkv. gegn 4 að mæla með því, að frv. þetta yrði samþ.

F. h. fjvn. Alþingis.

Bjarni Bjarnason.

Jónas Guðmundsson.“

Ég hefi svo ekki að svo stöddu meiri skýringar að gefa um málið.