04.04.1936
Efri deild: 42. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (801)

93. mál, Menningarsjóður

Þorsteinn Þorsteinsson:

Þegar þáltill. um samskonar mál og þetta lá fyrir síðasta þingi, lýsti ég afstöðu minni til þessa máls og tjáði mig vera mótfallinn því að leggja þyngri gjöld á ríkissjóð frá því, sem verið hefði, og fá það fé í hendur sérstöku ráði eða n. til útdeilingar. Áleit ég ekki heppilegt að fá slíkri n. mikið fé, sem hún úthlutaði án þess að bera undir þingið.

Aðstaðan í fjvn. var sú, að við 4 nm. töldum, eins og útlit allt og fjárhagsástæður ríkissjóðs eru nú, ekki gerlegt að leggja fleiri tuga þúsunda skatt á ríkissjóð til að greiða útgjöld, sem að litlu eða engu leyti hafa hvílt beint á ríkissjóði.

Ég get ekki séð annað, ef frv. þetta gengur í gildi, en að færa verði þennan útgjaldaauka á fjárl. Ég fæ ekki séð, að hægt sé að veita sérstöku ráði þennan rétt með einföldum lögum, heldur verði og að færa þessa upphæð sem útgjaldalið á fjárl., og eftir því, sem hér er krafizt, mun þurfa 39 þús. kr. eða meira.

Ég hygg, að ekki muni of þægilegt að halda jafnvægi á fjárl., þó þessu sé ekki bætt við. Það er í sjálfu sér ekki lastvert, heldur hrósvert að styrkja listamenn eða gefa út góðar bækur, ef það er gert að vel athuguðu máli, og eins að styrkja náttúrufræðirannsóknir. En ég álít ekki fært að bæta við stórfé fram yfir það, sem áður hefir verið. Ef sérstöku ráði er falið að úthluta þessu fé, er fjárveitingavaldið dregið að nokkru leyti úr höndum Alþingis, því það ræður þá ekki, hvernig því er útbýtt, þó að það velji mennina til að úthluta því. Eins er ég smeykur um, þó að þetta ráð fái umráð yfir meira fé, þá verði sama útkoma og áður hefir verið, að það sendi menn beint til Alþingis með fjárkröfur sínar, og það veiti styrki eins og verið hefir, þó að meira fé sé látið til úthlutunar.

Hvað breyt. í 2. gr. viðvíkur, vil ég segja, að þó ég sé ekki ánægður með ráðstafanir eða úthlutun nú undir þessu ráði, þá er ég ekki viss um, að hún verði til bóta, því það veit hönd, hvað hefir, en ekki, hvað hreppir; ég tel því ekki rétt að breyta þessu.

Breyt. sú, sem n. vill gera á 3. gr. laganna, er næsta þýðingarlítil eins og hún er, 3. gr. má breyta með því að breyta einu orði í 2. gr. Upphaf hennar hljóðar svo: „Menntamálaráð hefir á hendi yfirstjórn menningarsjóðs.“ Get ég ekki séð annað en með því að fella niður fyrri hluta orðsins „yfirstjórn“ næðist alveg það sama, og mætti þá 3. gr. falla niður.

Hv. þm. S.-Þ. segir, að gerð hafi verið lítilfjörleg breyt. á l., en mér finnst, að gerð hafi verið töluverð breyt. Í stað þess að áður hefir úthlutun hvílt í höndum 2–3 undirnefnda, eiga þær nú að hverfa úr sögunni og allt að leggjast í hendur 5 manna sjóðstjórnar.

Ég verð nú að segja, að ég legg ekki allt upp úr þessu ávarpi frá listamönnunum, — eða svokölluðum listamönnum, getum við sagt um suma þeirra. Það hefir sýnt sig, og er eins og maður veit, þegar gengið er um og safnað undirskriftum, að þá má ná nokkuð mörgum nöfnum, en það hefir ekki alltaf verið farið eftir því, og þingið verður vitanlega að taka sínar ákvarðanir fyrir því, þó einhverjir vilji skipa því fyrirfram fyrir verkum. Það getur vel verið, að oft hafi verið farið illa með okkar listamenn, en að hver einn og einasti, sem hefir náð því stigi, hafi gengið gegnum sárar þjáningar af skorti og hungri, held ég að sé of mikið sagt. Það er náttúrlega erfitt fyrir þá að ná sínum sigurhæðum, en sumir hafa náð þeim án þess að verða miklir píslarvottar hungurs eða fátæktar, sem betur fer.

Ég tek það svo fram að lokum, að ég áskil mér rétt til að gera brtt. við 3. umr., en annars hefði ég ekki talið fráleitt að fresta málinu og gera á því smábreyt. nú við þessa umr.