04.04.1936
Efri deild: 42. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 583 í B-deild Alþingistíðinda. (804)

93. mál, Menningarsjóður

*Frsm. (Jónas Jónsson):

Ég þakka hv. dm. vinsamlegar undirtektir við málið. — Um gagnrýni hv. þm. Dal. og hv. 1. þm. Skagf. er það að segja, að hún var að miklu leyti samhljóða hjá báðum, og sé ég ekki ástæðu til að svara henni nema með einni röksemd. Þeir benda réttilega á illt árferði, og verður því ekki mótmælt, að tímarnir eru erfiðir. En þetta, sem hér er um að ræða, leiðir beint af því, sem áður hefir verið gert. Þeir, sem réðu hér málum 1918 og slitu ríkissambandinu við Dani, sviptu okkur um leið Carlsbergssjóðnum, sem áður hafði haldið hér uppi nokkurri vísindastarfsemi, kostað ferðir Þorvalds Thoroddsens o. s. frv. Af því að við verðum pólitískt sjálfstæð þjóð má nú ekki leiða, að við verðum menningarlega ósjálfstæðir. Við megum ekki þar fyrir láta niður falla nokkurn þátt í okkar andlega lífi, því að ef við gerum það, viðurkennum við um leið, að við getum ekki verið pólitískt sjálfstæðir, Framsfl., Sjálfstfl. og Alþfl. lýstu yfir því á þingi 1928, að eftir 1943 myndu Íslendingar taka utanríkismálin í sínar hendur. Þetta getur nú ekki kostað okkur minna en 600–700 þús. kr. á ári. Ég er ekki með þessu að afsanna, að erfitt sé að bera þær byrðar, sem hér er um að ræða. En eins og þjóðin komst að þeirri niðurstöðu fyrir 8 árum, að við yrðum að taka að okkur utanríkismálin, þótt dýrt myndi reynast, eins verðum við nú að horfast í augu við þá nauðsyn að halda hér uppi listum og menningarlífi.

Út af því, sem hv. þm. Dal. sagði, að ef frv. yrði samþ., þá yrði upphæðin að koma á fjárl. er það að segja, að ég býst við, að það sé rétt. En með því að frv. er mjög skammt á veg komið, býst ég við, að menn myndu sættast á, að það þyrfti ekki að koma í fjárl. að þessu sinni, því að þótt það næði samþykki á þingi, þá eru líkur til, að það yrði ekki búið í Nd. fyrr en fjárl. umr. væri lokið.

Hv. 1. þm. Skagf. stingur upp á því, að ríkið leggi sjóðnum til ákveðna upphæð árlega, og kemur það að sjálfsögðu í sama stað niður fyrir málefnið. En ég hefi nú beitt mér fyrir hinu í n., og ég get fullyrt, að þessar 50 þús. kr. hefðu ekki verið samþ. 1928 sem fast tillag úr ríkissjóði. Ef það yrði nú, þá væri það bara af því, að þessi fjárveiting er áður komin á. Hinsvegar vil ég ekki beita mér fyrir þeirri aðferð, því að það myndi setja málið í meiri hættu en það er í nú. Og ég sé ekki ástæðu til að vera á móti þessu tillagi til menningarsjóðs, þótt það sé fengið af sektarfé. Það er með þetta fé eins og rómverska peninginn, sem Vespasíanus keisari sagði, að væri jafngóður í ríkissjóðinn, hvernig sem hann væri fenginn. Og þó að sumum þyki það leitt, að ríkið skuli hafa áfengið að einni sinna stærstu tekjulinda, þá ber á það að líta, að svo er víða annarsstaðar. Okkur hv. 1. þm. Reykv. má vera það eftirminnilegt, er við skoðuðum Carlsbergsverksmiðjurnar og síðan listasöfnin, sem komið hafði verið upp fyrir fé þessa fyrirtækis, og sáum, hvernig Danir láta gróðann af ölinu renna til lista og vísinda, því að um ölverksmiðjurnar Tuborg gegnir svipuðu máli og um Carlsberg. Það hefði ekki verið viðlit að veita öðrum eins peningastraumi til vísinda og lista í Danmörku og gert hefir verið, ef ekki hefði fengizt fé frá þessum fyrirtækjum. Ég get t. d. bent á, að Carlsbergssjóðurinn veitti Frederiksbergi 90 þús. kr. til eins einasta listaverks, sem á að standa þar í sundhöll einni, sem reisa á í sumar. Út um alla Danmörku er dreift listaverkum, sem gerð eru fyrir þá peninga, sem Carlsberg hefir upp úr sínu öli. Ef þessi sjóður hefði ekki verið, myndi ekki hafa fengizt fé til kaupa á þessum listaverkum. Ég get í þessu sambandi minnt á, að á einu af mínum fyrstu þingum fór ég fram á 2000 kr. fjárveitingu til kaupa á málverki eftir Ásgrím Jónsson, en það var fellt. — Norðmenn leggja mikið af áfengisgróða sínum beint til íþróttamálanna. Þeir gera það bókstaflega til að friða samvizku sína. Þegar ekki er hægt að komast hjá því að hafa vín í landinu, svo skaðlegt sem það er, er eins og menn vilji gefa til guðsþakka með því að leggja ágóðann af því til menningarmála.

Ég sé af bendingu, sem ég fékk áðan, að réttara muni vera að leggja fram skrifl. brtt., og mun ég gera það.