16.04.1936
Sameinað þing: 13. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 211 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

1. mál, fjárlög 1937

*Jóhann Jósefsson:

Ég hefi leyft mér að koma fram með tvær litlar brtt. við þessa umr. fjárlaganna, og er önnur þeirra um bókasafn Vestmannaeyja. Er hún undir X á þskj. 329.

Ég sé, að samkv. gildandi fjárlögum og eins samkv. till. fjvn. eru öll bókasöfn í kaupstöðum búin að fá einhverskonar styrk, og þykir mér því hlýða að benda á, að bókasafn Vestmannaeyjakaupstaðar hefir enn ekki orðið þessara fríðinda aðnjótandi.

Bókasafnið er gamalt það hét fyrst Lestrarfélag Vestmannaeyja, en þegar Vestmannaeyjar urðu kaupstaður, þá var því breytt í bókasafn Vestmannaeyjakaupstaðar og er nú eign bæjararins. Það hefir fært út kvíarnar og heldur m. a. opnum lestrarsal árið um kring, sem sérstaklega er til afnota fyrir þá aðkomumenn, sem vilja sitja einhversstaðar inni og líta í bók. En þetta hefir kostnað í för með sér, og þar sem ég hygg, að þetta bókasafn jafnist á við bókasafn Siglufjarðarkaupstaðar og annara slíkra kaupstaða, þá virðist mér sanngjarnt, að þetta bókasafn njóti sömu fríðinda af hálfu löggjafarvaldsins.

Hin till., nr. XIII. á sama þskj., stendur í samlandi við svo til nýja ráðstöfun bæjarstjórnarinnar í Vestmannaeyjum til að efla matjurtarækt í kaupstaðnum. Það er kunnugra en frá þurfi að segja, hver hörgull er á matjurtum í landinu, svo að það er sjálfsagt að gera skynsamlegar ráðstafanir til þess að auka innlenda ræktun á því sviði eins og unnt er. Auk þess kemur það til greina, að í kaupstöðum eins og Vestmannaeyjum er það mjög mikil búbót fyrir þá, sem annars stunda eyrarvinnu, að eiga góðan matjurtagarð. Nú hagar svo til í Vestmannaeyjum, að landssjóður á allt landið, en bærinn á ekkert sérstakt land sjálfur. Af þeim sökum hefir verið mjög torvelt að hjálpa þeim mönnum um land, sem annars hefðu verið fúsir að leggja á sig kostnað og vinnu við að koma sér upp matjurtagarði. Fyrir 3–4 árum síðan var bænum þó látið í té nokkuð stórt landflæmi inni við höfnina, og allt þetta land hefir hann tekið til úthlutunar handa fjölskyldum í bænum; eru þarna um 40 garðstæði, en að öðru leyti er landið sumpart komið í túnrækt, og nokkur hlutinn hefir verið afhentur íþróttafélaginu til þess að koma upp íþróttavelli.

Þetta landnám náði of skammt til þess að bærinn gæti stutt nægilega marga fjölskyldufeður til þess að koma upp matjurtagörðum, en svo sýndi sóknarprestur Eyjanna, sr. Sigurjón Árnason, þann drengskap og þá rausn að gefa leyfi til þess, að af landi Ofanleitisjarðarinnar, sem tilheyrir prestakallinu, væri tekið allmikið stykki, sem bærinn fær. Hann bauð það fyrir tveim árum síðan að gefa það eftir, að bærinn fengi þetta land til umráða, ef kennslumrh. samþ. það; á sínum tíma fékkst samþykki hans, og þannig fékk bærinn yfirráð yfir allmiklu graslendi ofan til á eynni. Svo tók bæjarstjórnin sig til og úthlutaði 160 heimilum matjurtareitum á þessum stað í viðbót við þá 40, sem áður höfðu verið látnir bæjarbúum í té. Þessir reitir eru frá 4–500 m2 að stærð, og fer það eftir því, hvort landið er grýtt; þeir, sem fengu grýtt lund, fengu stærra en hinir. Nú er verið að undirbúa ræktun á þessu sviði og verður því haldið áfram. Við gerum okkur vonir um, að af þessu geti hlotizt mikil blessun fyrir það fólk, sem þarna býr, og ber í raun og veru að þakka það að mestu leyti þeim áhuga, sem sóknarpresturinn hefir sýnt fyrir því, að gera bænum auðvelt að hjálpa mönnum til þess að efla ræktunina.

Með XIII. brtt. á þskj. 329 fer ég fram á það, að Alþingt styðji lítilsháttar að þessari ræktun með því að veita 2500 kr. til ráðstafana fyrir Búnaðarfélag Vestmannaeyja, og er hugsunin sú, að búnaðarfélagið styrki þá efnaminni of þeim mönnum, er hér eiga hlut að máli, til þess að koma sér upp matjurtagörðum.