04.04.1936
Efri deild: 42. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (810)

93. mál, Menningarsjóður

*Frsm. (Jónas Jónsson):

Það eru aðeins fá orð, sem ég vil segja út af þeim skoðanamun, sem er hjá okkur hv. 1. þm. Skagf. um fjáröflunarleiðina, sem aðallega er sektirnar. Hann hélt því fram, að ég myndi gera ráð fyrir, að hægra yrði að koma málinu áleiðis á þann hátt heldur en með því að taka féð úr ríkissjóði með beinu ákvæði í fjárlögum. Án þess að ég játi þessu eða neiti, þá vil ég benda á, að fram að þessu hefir Alþingi orðið að beygja sig fyrir því, að það er léttara að ná tekjum með tollum heldur en með beinum sköttum. Ég býst við, að þeir séu margir, sem játa að það ætti heldur að taka skattana þannig, að leggja þá á eftir efnum og ástæðum manna, heldur en að leggja tolla á þar vörur, sem almenningur þarf að kaupa. Það er alkunnugt, að jafnaðarmenn hafa haldið þessu fram, og margir ungir menn hafa slegið því föstu, að ekki eigi að leggja á tolla, en niðurstaðan hefir orðið sú, að menn lenda samt á tollaleiðinni, þótt það sé á móti vilja þeirra, af því að hún er greiðfærari. Um þetta eru til ýms dæmi úr skattamálasögunni.

Hér hefir verið á ferð frv. til l. um tekjustofna fyrir bæjar- og sveitarfélög, og þeir menn, sem um það höfðu að fjalla, komust að þeirri niðurstöðu, að ekki væri unnt að ná tekjum fyrir þessa sjóði með beinum sköttum, heldur yrði að fara hina leiðina. Þessi lausn á máli því, er hér liggur fyrir, er kannske ekki góð, en hún er studd af reynslu okkar sjálfra og annara þjóða, sem nota sér áfengið í þessum efnum.