20.04.1936
Neðri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 587 í B-deild Alþingistíðinda. (818)

93. mál, Menningarsjóður

*Sigurður Einarsson:

Eins og fram kemur í nál. á þskj. 361, hefir meiri hl. menntmn. orðið sammála um að leggja til, að frv. verði samþ. Sumir af nm. höfðu einnig átt þess kost að gera sér grein fyrir þessu máli í fjvn., og sumir okkar gera sér vonir um, að með því að hag menningarsjóðs verði komið á nokkurnveginn öruggan grundvöll, megi bægja frá þinginu ýmsum málaleitunum, sem því hafa borizt um styrki til allskonar lista og menningarstarfsemi.

Ég vil ekki draga dul á það, að ef verulegur árangur á að verða af því, að menningarsjóður komi í stað þingsins að þessu leyti, svo að menn venjist á að snúa sér til menningarsjóðs með styrkbeiðni í stað þingsins, þá verður að taka þetta mál föstum tökum og koma sjóðnum á það tryggan grundvöll, að það sé víst, að hann hafi árlega allmikið fé til sinnar starfsemi. Ég geri hinsvegar ráð fyrir að ef þetta verður samþ. og engar ráðstafanir verða gerðar til þess að beina frá þinginu til menningarsjóðs ýmiskonar styrkbeiðni, þá muni þetta valda auknum útgjöldum á þessu sviði, en ekki sparnaði.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum. Ég er sem sagt á þeirri skoðun, að ekki verði hjá því komizt að veita þetta fé, þar sem tekjur sjóðsins hafa þorrið jafngríðarlega undanfarin ár eins og raun ber vitni um, þar sem þær eru ekki nema tæpur þriðjungur af því, sem þær voru, þegar þær voru mestar.