20.04.1936
Neðri deild: 52. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 589 í B-deild Alþingistíðinda. (820)

93. mál, Menningarsjóður

*Sigurður Einarsson:

Ég vil vona, að hv. þdm. hafi ekki skilið orð mín svo, að ég hafi átt við, að fjvn. hafi verið einróma samþykk þessu frv. Ég átti vitanlega við meiri hl. — Ég vil svo aðeins segja það, að þetta mál gefur ekki tilefni til þess að fara út í víðtækar hugleiðingar um fjármálastefnu undanfarinna ára. Sú upphæð, sem hér um ræðir, er ekki svo stór, að á henni velti öll afkoma ríkissjóðs á hverjum tíma. Hitt er rétt, að það er náttúrlega varhugavert að binda stóra hl. ríkisteknanna fyrirfram um ófyrirsjáanlegt árabil. Það er von þeirra, sem standa að þessu frv., að með því verði hag menningarsjóðs komið í betra horf, og þá muni unnt og a. m. k. forsvaranlegt að vísa frá Alþingi ýmsum beiðnum, sem drífur að á hverju ári.