24.04.1936
Neðri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í B-deild Alþingistíðinda. (838)

33. mál, kennsla í vélfræði

Frsm. (Páll Þorbjörnsson):

Eins og nál. frá sjútvn. ber með sér, er frv. komið frá hv. Ed., og var það samið af mþn., sem hafði með þessi mál að gera, og áttu sæti í henni Friðrik Ólafsson, Sigurjón Ólafsson og Þorsteinn Loftsson.

Þetta frv. var borið fram á síðasta þingi, en það náði þá ekki fram að ganga. Svo var málið aftur borið fram af sjútvn. hv. Ed, og voru gerðar á því nokkrar breyt. í samræmi við álit þeirra, sem fluttu frv. í byrjun. Nú er svo komið, að sjútvn. Nd. hafa borizt ýms plögg frá hinum og öðrum aðiljum, bæði frá vélstjórum, rafvirkjum og mönnum, sem ganga á vélgæzluskóla. Allir þessir aðiljar benda á ýmislegt, sem þeir fyrir sitt leyti óskuðu frekar, að væri öðruvísi en í frv. er, en þó hygg ég, að óhætt sé að segja að sá aðilinn, sem mest hefir að segja í þessu efni, Vélstjórafélag Íslands, muni sætta sig við, að málið fari í gegn í þessum búningi frekar en að það nái ekki fram að ganga. Að öllu þessu athuguðu hefir það orðið að samkomulagi í sjútvn. að mæla með frv. óbreyttu, þó að einstakir hv. þm. áskilji sér hinsvegar rétt til þess að vera með brtt., ef þeim þætti þess þörf.