16.04.1936
Sameinað þing: 13. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 219 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

1. mál, fjárlög 1937

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Þó að fátt sé hér þm., þá verður maður að inna þá skyldu af höndum að tala um og mæla með þeim brtt., sem maður sjálfur flytur. Það er á þskj. 329, sem ég á fáeinar brtt. við fjárl., og er sú fyrsta undir rómv. 5, og er við 13. gr. Ég hefi þar leyft mér að leggja til, að framlög til tveggja vega verði hækkuð frá því sem er á fjárlfrv. Ég legg til, að fjárveiting til annars vegarins verði hækkuð úr 3000 kr. upp í 6000 kr., og er það í samræmi við það, sem vegamálastjóri hefir gert að tillögu sinni, að lagt yrði til hans. Það er satt að segja, að dómi allra þeirra, sem til þekkja það allra minnsta, sem getur komið að gagni. Þeir, sem nokkuð þekkja til á Síðu, vita að þegar á að gera þar bílfæran veg, að þá er langt frá því, að það geti komið til mála að kasta í það nokkrum hundruðum eða fáum þúsundum, ef það á að koma að verulegu haldi. Ef svo á að vera, að það komi að gagni, þá verður að leggja í það nokkuð mikið fé. Það má ekki ganga svo til eins og hefir átt sér stað að gerður hefir verið vegur fyrir nokkrar þúsundir, og er sá vegur hvorki farinn né fær, með því að hann er að engu leyti fullgerður, og verður svo með hvern vegarspotta, sem kemur á þennan hátt. Það er ekki hægt að nota veginn, ef ekki er veitt nægilegt til þess að gera þennan vegarspotta þannig, að hann sé fær bílum eða líkum farartækjum. Þess vegna koma þessar 3000 kr. að engu haldi nema sem undirbúningur. Fyrsta undirstaðan í þennan kafla kostar 3000 kr. En fyrir 6000 kr. telur vegamálastjóri, að það megi gera þennan kafla svo úr garði, að hann sé fær. — Nú má geta þess, að fjvn. hefir ekki séð sér annað fært en líta á þetta, og hefir því hækkað framlagið um 1000 kr., en því miður er það svo, að það er að áliti vegamálastjóra engan veginn nóg til þess að gera þennan vegarspotta, sem verður að taka í einu, fullfæran þegar í stað. Nú má segja, að á næsta ári megi bæta úr þessu á vegi, sem gerður er fyrir 5 eða 6 þús. árið áður. En það sem áætlað er að gera fyrir það, sem nú er veitt, nægir heldur ekki. Það verður að gera meira en að bera ofan í. Það hefir verið svo með Síðuveg og Mýrdalsveg, að það kemur ekki að haldi að veita aðeins 5 þús. kr. til nýbyggingar, því eins og ástatt er núna, þá má segja, að það sé enn ólagður vegur á því svæði, sem er verst yfirferðar, en er þó ekki vatn. Og það sýndi sig í vetur, þar sem bílar stóðu þar fastir, hvað eftir annað. Fyrir því hefi ég lagt til samkv. tillögu vegamálastjóra, að fyrir 3000 kr. komi 7000 kr. Ég býzt við, að fjvn. sé á einu máli um það, að hér er ekki farið fram yfir það, sem réttlátt má þykja. Hinsvegar mun hún segja, að fé sé ekki fyrir hendi. En mér sýnist það á till. hennar, og ég veit, að hún hefir það á meðvitundinni, að sumt af því, sem hún hefir tekið upp, er ekki nærri eins mikið réttlæti í falið eins og þeim till., sem ég hefi talað um, sem eru annarsvegar um það, að nýbyggður vegur verði gerður fær og hinsvegar að ólagður kafli í þessari þjóðbraut verður gerður fær, en nú er hann ófær. Eins og ég sagði áðan er þar ófært bílum, og er það sérstaklega á einum stað, sem bílar hafa hvað eftir annað stoppað, enda þótt þeir hafi komizt allt annað. Ég vil vænta þess, að hv. þm. bregðist vel við þessari till. og ljái henni atkv. sitt við 3. umr., því vel getur farið svo, að ég leggi ekkert kapp á að fá greitt um hana atkv. við þessa umr. málsins.

Næsta till. mín, undir VII, fer fram á, að veitt verði til dragferju yfir Eldvatn í Meðallandi 300 kr., en það er sama upphæð og nú er veitt á fjárlögum til ferjanna á Lagarfljóti og Blöndu. Eftir því, sem ég hefi kynnt mér, fer því fjarri, að þessar ferjur eigi meiri rétt á sér heldur en á ýmsum öðrum stöðum, þar sem til mála getur komið að ferjur verði settar. Eins og nú er ástatt, er ekki útlit fyrir, að Eldvatnið fáist brúað; það liggur ekki sýsluvegur um það og fæst því ekki styrkur af sýsluvegafé til þess að brúa það. Það var þar að vísu áður þjóðvegur, en hann hefir verið fluttur upp til fjallanna. Ég veit, að fjvn. muni líta sömu augum á þetta og ég, og verður væntanlega fullt samkomulag um þennan lið.

Þá er loks ein till. sem ég hefi borið fram, hún er undir XV. Þar er farið fram á samkv. erindi til fjvn., að veittur verði nokkur styrkur til þess að standa straum af hluta kostnaðar við ferðir dýralækna í fjarlægar sveitir, og sé því úthlutað eftir till. ráðh. Eins og kunnugt er eru dýralæknar ekki nema 5 á öllu landinu, og því mjög misjafnar aðstæður manna til að ná til þeirra. Það kom fyrir nú í vetur skömmu áður en ég fór til þings, að það þurfti að sækja dýralækni út að Ölfusá, alla leið austan úr Álftaveri. Það kom nú náttúrlega ekki til af góðu, enda er það svo, að menn leita ekki dýralæknis nema í brýnustu nauðsyn, en þarna kom upp skæð pest, svo stórgripir hrundu niður. Enginn hafði hugmynd um, hvaða pest þarna hafði gripið skepnurnar, og var það auðvitað ennþá verra heldur en þó að t. d. þetta hefði verið miltisbrandur eða þessháttar. Við komu dýralæknisins fékkst svo nokkur bót á þessu, og gat hann stemmt stigu fyrir útbreiðslu veikinnar. Að vísu var læknirinn ekki viss um hvort þetta væri þessi pestin eða hin, en það skiptir litlu máli. Það er ljóst, að af slíkum vitjunum getur leitt mikinn kostnað fyrir sveitirnar, og virðist ekki nema sanngjarnt, að hið opinbera greiði hluta þessa kostnaðar. Þessi till. er borin fram af þessum ástæðum, sem ég nú hefi greint og eftir till. dýralæknanna sjálfra, en þeir hafa sent erindi um þetta til stjórnarráðsins, en það erindi hefir ekki enn komið til þingsins eins og virðist þó hafa verið sjálfsögð skylda ráðh., að láta það ganga þangað, en stjórnarráðið hefir látið þetta undir höfuð fallast, og því hefir ég sent fjvn. þetta mál til athugunar. Ég sé, að það hefir verið lesið þar, eða að minnsta kosti stendur það hér á því, að svo sé. Ég vænti þess, að n. athugi þetta mál. Það er ekki að eins Skaftafellssýsla, sem þetta kemur til góða, svona lagað getur komið fyrir í öllum landshlutum og veit enginn hvenær slíkt dynur yfir.

Ég skal svo ekki fjölyrða frekar um þessar till. mína, enda virðist það svo, að hv. þm. vilji helzt vera fjarverandi, þeir sem ekki þurfa að tala fyrir till.