25.03.1936
Efri deild: 33. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (844)

88. mál, vegalög

*Flm. (Jónas Jónsson):

Af vissum skiljanlegum ástæðum mun ég ekki tala langt mál um þetta frv. — (þingmaðurinn var mjög hás) Þó vil ég fylgja því úr hlaði með nokkrum orðum.

Í frv. er sérstaklega um að ræða tvö merkileg atriði. Annað er Suðurlandsvegurinn, sem ég geri ráð fyrir, að verði hér nokkru nánar ræddur af öðrum. Hitt er ýmsar smærri breyt., sem ná til kjördæma víðsvegar um landið. Hafa þar verið teknar upp ýmsar till. einstakra þm., sem líkur eru til, að verða myndu til bóta, en sleppt öðrum, sem vafasamt er, að yrðu til bóta. T. d. hefir hv. þm. Snæf. óskað eftir, að 4 vegir í kjördæmi hans yrðu gerðir að ríkisvegum, en á það höfum við ekki getað fallizt, því að við álítum það myndi verða afturför frá því, sem nú er.

Viðvíkjandi fyrsta veginum, sem nefndur er í frv., vil ég benda á það, að vegamálastjóri hefir komizt að þeirri niðurstöðu, að vegurinn um Þrengslin myndi kosta um 700 þús. kr., og myndi þó ekki verða notaður nema sem vetrarvegur. En þar sem þess er gætt, að þetta bara verður vetrarvegur, og mjög dýr, og auk þess undir mikilli snjóhættu, verður að telja, að hann sé ekki sérstaklega heppilegur. Hefir því komið fram uppástunga um, að vegurinn ætti heldur að liggja meðfram ströndinni, þar sem snjóþyngsli eru minni. Getur nú ríkisstj. valið um, hvort hún vill heldur byrja á veginum um Þrengslin eða ráðast í snjólausu leiðina meðfram sjónum. Ég held, að með þessu frv. sé stj. í fyrsta sinni gefinn kostur á að taka upp heppilegri vetrarveg en um Þrengslin. Annars vil ég ekki orðlengja um þetta mál að sinni, en legg til, að því verði vísað til samgmn.