25.03.1936
Efri deild: 33. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (845)

88. mál, vegalög

*Jón Baldvinsson:

Það má segja, að því nær á hverju þingi séu fluttur till. um breyt. á vegal. Menn vilja láta lögfesta sem ríkisvegi hinar og aðrar brautir, sem þeir kunna að hafa sérstakan áhuga fyrir. Hefir þetta venjulega byrjað svo, að einn þm. hefir borið fram till. um vegarspotta handa sínu kjördæmi, og svo hafa allir komið og hengt sig aftan í, þar til till. þessar voru orðnar margar bls. En þetta frv. er frábrugðið því, sem venjulega hefir verið. Við hv. þm. S.-Þ. höfum tekið þann kost að taka allmarga vegi upp í frv., Og geri ég ráð fyrir, að menn muni geta verið ánægðir með það, það sem það nær. En eins og hv. þm. S.-Þ. tók fram, teljum við mikilvægasta till. um að lögfesta leiðina um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog austur í Ölfus.

Að því er snertir vegal. og vegagerð í landinu, hefir langmest verið um það rett, hvernig tryggja mætti samgöngur milli hinna fjölmennu bæja við Faxaflóann og hinna fjölmennu sveita á Suðurlandsundirlendinu með góðu vegarstæði, sem gæti verið fært bæði vetur og sumar, svo að duttlungar veðursins þyrftu ekki að ráða því, hvort hægt væri að halda uppi samgöngunum eða ekki. Viðskipti þarna á milli eru nú orðin svo mikil, að full þörf er á daglegum samgöngum, sem hægt sé að halda uppi allan ársins hring. Ég efast um, að nokkurntíma hafi verið stungið upp á möguleika til að tryggja þessar samgöngur á eins heppilegan hátt og í þessu frv. Þó að ég sé ekki sjálfur kunnugur þessari leið, hefi ég átt tal um hana við kunnuga menn, sem segja mér, að síðan 1882 hafi ekki fest þar snjó. Þessi leið, sem fyrst og fremst hefir verið hugsuð sem vetrarvegur, er að vísu nokkuð löng, en þegur þess er gætt, hve oft er erfitt að komast yfir Hellisheiði, ætti það að vera tilvinnandi að leggja jafnvel helmingi lengri veg. Það er kunnugt, að Hellisheiði er oft ófær í veðraham á vetrum, og jafnvel þótt slarkfært sé, eru bílar marga klukkutíma að brjótast yfir heiðina frá Kömbum og vestur að Kolviðarhól, svo að þótt þeir yrðu að fara margfalt lengri snjólausa leið, myndi það oftast taka miklu skemmri tíma.

Raunar hefir fleira verið hugsað í þessu máli en það eitt að tryggja samgöngurnar við Suðurlandsundirlendið. — Margir segja, að þó að Hellisheiði sé ófær, þá myndi oftast vera hægt að fara Þingvallaveginn, ef hægt væri að koma honum í samband við Ölfusið, því að þar myndi oftast snjólaust. Þetta er nú lítið styttri leið en vegurinn suður með, en auk þess hefir þessi fyrirbugaða leið þann kost, að hún liggur svo að segja öll um ræktanlegt land. Þarna eru byggðir, og eru líkur til, að þar rísi upp allmörg býli, ef ræktun verður aukin. Yfirleitt finnast mér svo margar stoðir renna undir þessa till., að sjálfsagt sé, að Alþingi samþ. hana.

Ég vil ekki rekja alla þá vegakafla, sem stungið er upp á að taka í tölu þjóðveg. Eg skal játa, að þó að ég sé flm. að þessu frv., er ég ekki nauðakunnugur öllum brautum, sem þar koma til greina, þótt ég hinsvegar hafi tekið trúanlegt það, sem mér hefir verið sagt. Eg er þó nokkuð kunnugur svokölluðum Útnesvegi, sem liggur frá Ólafsvíkurvegi og ætlazt er til, að nái út á Sand. Þetta er alllangur vegur, og lengstur hluti hans þyrfti ekki fyrst um sinn að vera nema ruðningur. Liggur leiðin yfir hraun, svo að líkur eru til, að skemmdir á veginum yrðu ekki miklar og viðhald ódýrt. En við þetta kæmust Sandur og Ólafsvík í vegasamband, en þar eru, eins og kunnugt er, á annað þús. manns. Við þetta myndu líka margar verstöðvar komast í vegasamband. Er því meiri nauðsyn á slíkum vegi sem samgöngur á sjó eru þarna erfiðari, og segja má, að hafnargerð sé þarna lítt vinnandi verk vegna kostnaðar. En landvegur, sem flesta vetur væri fær til Borgarness, væri mikið hagræði fyrir þorpsbúa þessa, sem oft draga svo mikið verðmæti úr sjónum.

Ég vænti þess, að hv. samgmn. veiti þessu máli fyllstu athygli og láti ekki dragast að vísu því áfram. Ég teldi það skaða mikinn, ef málið næði ekki fram að ganga í aðalatriðum. Hinsvegar tek ég fúslega til greina brtt., sem á rökum eru byggðar.

Ég vil að lokum ítreka það, að ekki eru líkur til, að vegurinn um Þrengslin gefist betur en vegurinn um Hellisheiði, og eru líkur til, að hann verði jafnoft ófær og hinn. Því væri ekki úr bætt, þótt ráðizt væri í að leggja þann veg með ærnum kostnaði. Hinsvegar býður vegur sá, sem við stingum upp á, eins mikið öryggi og hægt er að krefjast, ef á annað borð er hægt að komast nokkuð út úr bæjunum fyrir snjó.

Gæti jafnvel verið mikill snjór í Mosfellssveit og hér í kringum Rvík og þó snjólaust á þeim slóðum, sem vegur þessi á að liggja um. Finnst mér engin ástæða til að rengja þaulkunnuga menn, sem segja, að þar hafi varla fest snjó síðan 1882.