06.04.1936
Efri deild: 43. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 597 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

88. mál, vegalög

Magnús Guðmundsson:

Af því að hér er á ferðinni frv. sem stórkostleg fjárframlög fylgja, vildi ég spyrja um, hvort það hefði verið borið undir fjvn., en svo mun vera fyrirmælt um frv., sem gera ráð fyrir fjárframlögum úr ríkissjóði. Mér hefir talizt svo til, að af samþykkt frv. mundi leiða ekki undir 100 þús. kr. hækkun á útgjöldum til vegamála á ári, því að viðbótin við þjóðvegina mun vera á annað þús. km., og þegar athugað er, að allir þeir þjóðvegir, sem nú eru, eru ekki nema á fjórða þús. km., sést, að hér er um gífurlega aukningu að ræða. Ég verð að segja, að ég er í efa um það gagn, sem af þessu fæst í náinni framtíð, þar sem ekki er sjáanlegt, að hægt verði að auka mikið fjárframlög til veganna frá því, sem nú er. En það má vel vera, að stjfl. sjái framundan möguleika til þess að hafa næga peninga, og þá er ekkert við þessu að segja. Ég vil samt nota tækifærið til þess að benda á, að á síðasta þingi, og eftir því, sem líkur eru til, að samþ. verði á þessu þingi, hafa fastir útgjaldaliðir fjárl. hækkað um rúmlega eina millj. króna. Er þó ekki reiknað með þeirri ¼ millj., sem búizt er við, að komi inn með benzínskattinum, en hann á að nota til vega, sem áður hvíldu á ríkissjóðnum. Því er rétt að leggja þessa ¼ millj. kr. við, og verður þá aukningin undir 1½ millj kr.

Ég neita því ekki, að það geti víða komið sér vel fyrir héruðin að koma af sér vegakostnaðinum á ríkissjóðinn, en hitt er athugandi, hvort það verður ekki meira í orði en á borði, þegar ekki eru líkur til, að í fyrirsjáanlegri framtíð verði hægt að leggja þá vegi, sem nú er verið að taka í þjóðvegatölu.

Ég skal ekki fremur en hv. frsm. fara út í að ræða leiðina um Krísuvík. En ég vildi spyrja, hvort það sé ekki meiningin að leggja leiðina um Þrengslin niður. Um þá leið eru til l. frá 1932, en ég sé ekki, að frv. geri ráð fyrir, að þau l. séu numin úr gildi. Ef Krýsuvíkurleiðin er tekin upp til þess að þóknast héruðum austan heiðar, liggur nærri að spyrja, til hvers lögin frá 1932 voru sett. Náttúrlega er ekki dýrt að búa til svona pappírsvegarleiðir. En ég verð að segja, að ef ég ætti hlut að máli, mundi ég vera mjög óánægður yfir að eiga að búa við slíka pappírslagavegagerð. Ég mundi heldur vilja einn veg á landi en marga á pappírnum. Þetta vegamál austur yfir fjall er að verða hlægilegt og lítur út fyrir, af þessum sífelldu breytingum, að lítil alvara sé í þessu máli hjá þinginu. En sem sagt mun ég ekki fara út í að ræða syðstu leiðina fyrr en umsögn vegamálastjóra liggur fyrir.

Frv. þetta er í fullu ósamræmi við það, sem gert var á þingi í fyrra, því að þá var ákveðið að draga úr fjárveitingum til sýsluvegasjóðanna. En ef nokkur skynsemi á að vera í því að taka nýja vegi í þjóðvegatölu, þá hlýtur það að vera gert til þess að losa sýslurnar við vegakostnaðinn þar. Mér skildist, að hv. flm. segðist hafa ráðgazt við þm. um, hvaða nýja vegi skyldi taka upp í tölu þjóðvega, en ég sakna þess, að hann hefir ekki rætt það mál við mig að því er snertir vegi í mínu kjördæmi. Ég mun því, ef mér sýnast líkur til að frv. verði samþ., bera fram brtt. við 3. umr. um vegi í Skagafirði.