16.04.1936
Sameinað þing: 13. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

1. mál, fjárlög 1937

Guðrún Lárusdóttir:

Ég vil taka undir það, sem hv. þm. V.-Sk. sagði, að það er erfitt að standa hér upp og tala fyrir áhugamálum sínum yfir tómum stólunum. Og það er því miður oft, sem það einkennir þessa samkomu, hve fáir sitja. Ég vil ámæla því framferði, hávaða og látum, sem því miður of oft einkennir þingið. Ég hefi leyft mér að bera fram nokkrar brtt. við frv. það til fjárl., sem hér liggur fyrir. Þær hníga allar svo að segja að því að styðja og styrkja menningar- og mannúðarmál í landinu. Það eru ekki nema nokkrir dagar síðan hér í þinginu var borið fram frv. til l. um drykkjumannahæli. Af því að 1. brtt. er um það, þá ætla ég að mæla fyrir henni fyrst. Því frv. fylgir ýtarleg grg. og sundurliðun á því ástandi, sem nú ríkir með þjóð vorri í þessu efni. Það hlýtur að vera lýðum ljóst, að ástandið í þeim málum er nú orðið svo, að varla verður lengur við unað án þess að eitthvað verði aðhafzt til hjálpar mönnum, sem eru að farast í áfengisflóðinu. Ég hefi óskað eftir, að lagðar yrðu af mörkum í þessu skyni 20000 kr. Það kann að þykja nokkuð há upphæð, en þegar þess er gætt, til hvers hún á að fara og til hve mikils góðs hún getur orðið þá er hún ekki há. Ég ætla því að vona, að hv. þm. sjái sér fært að verða við þessari fjárbeiðni.

Næsta brtt. er við 12. gr., tölul. l6. c. Það er viðvíkjandi styrk til fávita. Á fjárl. eru ætlaðar 5000 kr. í þessu skyni. Það er náttúrlega betra en ekki neitt, en mjög er það lítið og fremur illa skammtað til styrktar þeim mörgu, sem eru fávitar, og þeim mörgu heimilum, sem bera þá þungu byrði að hafa fávita innan sinna vébanda. Eins og hv. þm. er kunnugt, voru á síðasta þingi sett lög um fávitaheimili. Samkv. bráðabirgðaákvæðum þessara laga er tekið skýrt fram að meðan ríkið ekki eignist sjálft slík heimili skuli þó greiddur með þeim viss hluti fjár til þeirra heimila, sem við yrði samið og heilbrigðisstjórnin álítur sæmileg. Þegar þetta var orðið að l. héldu margir, að nú væri nóg aðgert og það mundi koma af sjálfu sér, að þetta fé yrði greitt, og hrepparnir, sem höfðu fávita á þessu eina heimili, sem til er, Sólheimum, drógu að sér höndina og hættu að borga nema þann hluta, sem þeim var gert að greiða eftir l. Það sama munu þeir fáu einstaklingar hafa gert, sem þarna höfðu fávita. Þetta hlýtur óhjákvæmilega að leiða til þess, að hið eina heimili, sem ætlað er fávitum, verður blátt áfram að loka og hætta starfi. Til þess að reyna að ráða einhverja bót á þessu hefi ég borið fram þessa till. um hækkaðan styrk til fávitameðlags úr 5000 kr. upp í 15000 kr. Ég veit, að hv. þm. eru yfirleitt svo sanngjarnir, að þeir sjá, að við svo búið má ekki lengur standa. Ég sé, að hæstv. fjmrh. er nú kominn, — ég vil segja loksins kominn og ætla ég því að snúa máli mínu til hans. Hæstv. ráðh. minnist þess, að ekki alls fyrir löngu átti ég tal um þetta við hann. Þá bar hann því við, að það hefði ekki verið sett í fjárl. samtímis því, sem l. voru sett. Þá bar hann því einnig við, að ekki hefði verið samið við neina sérstaka staði um að taka fávita. Hvað því viðvíkur, að það hafi ekki verið sett í fjárlög, þá vil ég segja það, að það hefði áreiðanlega verið hægt um vik að gera það, að setja það í aukafjárlög. Það er áreiðanlegt, að margt annað óþarfara hefir þjóðin greitt heldur en þó hún greiddi meðlag með nokkrum vesalingum, sem enga eiga að, því hér eiga oft í hlut mjög fátæk heimili og bágstödd. Ég ætla að láta þessi fáu orð nægja í bili um tillöguna, en ég vil treysta á sanngirni hv. þm. og fjmrh., að þeir sjái sóma sinn í því að veita hjálpina þar, sem hennar er mest þörf.

Þá kem ég að till. við 17. gr. 3., nýr liður, til barnaverndar. Fyrir fjvn. mun hafa legið umsókn um 20000 kr. styrk frá barnaverndarráði Íslands. Ég get bent á ýmsa, sem hafa gert heiðarlegar tilraunir til þess að vinna að barnaverndarmálum vor á meðal, t. d. Oddfellowregluna, sem hefir undirbúið framtíð margra barna með góðum árangri. Þá eru og ýmsir fleiri, sem nefna ber, t. d. Afmælisfélagið. Þetta félag hefir reist sæmilegt hús til að hafa sumarbústað í fyrir börn gegn lágu gjaldi. Það hefir stuðzt fjárhagslega að nokkru leyti við það, að á sínum tíma samdi félagið við sænskt eldspýtnafirma og fékk til umráða mikið af eldspýtum og gat selt þær með góðum hagnaði, vegna hagstæðra samninga, en þegar eldspýtna einokunin eða einkasalan kom hér, þá var úti um þann ágóða. Þetta átti ekki svo lítinn þátt í, að afmælisfélagið lokaði heimili sínu. Ég tek þetta hér fram til að sýna, að það getur haft allvíðtæka þýðingu, þegar ríkisvaldið er að seilast inn á atvinnusvið einstaklinganna. Hér er ofurlítið dæmi um, hvað það getur komið hatramlega niður á þjóðinni og hennar viðkvæmustu efnum. Það má taka fleira fram í þessu sambandi, t. d. kvenfélögin úti um land, sem hafa verið að reyna að koma sér upp dagheimilum, en hafa oftast orðið að hætta vegna féleysis. Dagheimili, sem rekið er í Hafnarfirði, hefir því verið svo sérstaklega heppið að fá styrk frá ríkinu, en við hlið þess starfar dagheimili hér í Rvík, sem engan styrk fær, en ég ætla nú að vona, að fjvn. geri eitthvað til þess að greiða fyrir því. Ef Alþingi sér sér fært að láta þá upphæð, sem ég fer fram á í þessu skyni, eða 20000 kr., þá fullyrði ég að málefnum barnanna verði mikið betur komið á næstunni en nú er, og veitir sízt af því.

Till. mína viðvíkjandi elliheimilinu Grund ætla ég að taka aftur til 3. umr.

Svo er brtt. við 18. gr., sem fer fram á að bæta í hóp annara ljósmæðra einni nýrri ljósmóður, sem aldrei hefir fengið nein eftirlaun fyrir 20 ára starf. Þessi kona sótti í fyrra til þingsins um lítilsháttar eftirlaun, en beiðni hennar kom aldrei fram. Síðan hefi ég kynnzt konunni nokkuð, högum hennar og heilsufari. Ég veit, að hún er makleg að fá þessa viðurkenningu, og ég ætla að vona, að ríkissjóður láti sig ekki muna um þessa litlu viðbót á því, sem hann gerir fyrir ljósmæðurnar í landinu.