15.04.1936
Efri deild: 49. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í B-deild Alþingistíðinda. (858)

88. mál, vegalög

*Þorsteinn Briem:

Það hefir verið stefna í vegamálum undanfarið að auka vegakerfið smám saman. Það hefir ýmsa kosti í för með sér. Verður ekki eins tilfinnanlegt að taka við nýjum vegum, ef þeir koma smátt og smátt. En það hlýtur alltaf að kosta ríkið allmikið fé að koma vegum í sæmilegt stand, eftir að þeir eru orðnir þjóðvegir. Ég býst við, að þessi hugsun hafi vakað fyrir hv. flm. frv. og forðað þeim frá því að fara stór stökk í þessum efnum úti um landið, þó að mikið stökk hafi verið gert á einum stað. En þó tel ég hv. flm. og hv. samgmn. hafa verið fremur of smástig en of stórstig um aukningu á vegakerfi landsins. Sérstaklega á þetta við um þau héruð, sem hingað til hafa lítils notið af opinberu fé til vegagerðar. Tek ég þar til dæmis það hérað, sem brtt. mín á þskj. 314 snertir, Dalasýslu. Sú sýsla hefir fengið einna minnst úr ríkissjóði til sinna vega allra sýslna. Ég ætla, að það sé ekki meira en 300–350 þús. kr. alls. Flest önnur héruð hafa fengið 6–7 hundr. þús. og sum yfir millj. kr. Og með tilliti til þess ber ég fram brtt. á þskj. 314, sem sé að upp í frv. sé tekinn nýr vegur, sem nefnist Skarðsstrandarvegur, sem liggi frá Vesturlandsvegi norðan Ásgarðs í Hvammssveit um Staðarfell á Fellsströnd og um Skarðsströnd á Vesturlandsveg í Saurbæ.

Til þessa liggja fyrst og fremst þau rök, að þetta hérað hefir orðið afskipt með vegi, og þar næst ber að líta á það, að sýslan hefir kostað mjög miklu til vegalagninga á undanförnum árum og lagt þung gjöld á sýslubúa, en þeirra máttur hefir náð of skammt. Hinsvegar er margt, sem kallar að um vegabætur, sérstaklega í sunnanverðu héraði, og reyndar um allt svæðið. Ég skal nefna það, að í héraðinu leikur mönnum hugur á að stofna mjólkurbú við Búðardal, og skiptir þá miklu máli, að vegakerfi sé í því lagi, að sem flestar sveitir geti tekið þátt í því, einkum með rjómaflutningi, og ætla ég, að það borgaði sig allvel, enda þótt um langan veg sé að flytja. Auk þessa má búast við, að sýslan fái frystihús í Búðardal, og er þá mikil ástæða til að bæta samgöngurnar þannig utan úr sýslunni. Það er kunnugt, að úthluti sýslunnar sætir erfiðum sjávarflutningum á sláturfé sínu til Stykkishólms. Það getur verið svo erfitt með þessa flutninga, að þeir teppist alveg um langa tíma, og getur verið mjög bagalegt, og eiga bændur þá á hættu að geta ekki notað sér margt af sláturafurðum meira en markaður er fyrir þær á staðnum; en fyrir þær er mjög takmarkaður markaður í Stykkishólmi og heppilegra að geta flutt þær heim heldur en verða að sæta þeirri sölu.

En hvað snertir Saurbæ, Skarðshrepp, Klofningshrepp og nokkurn hluta Fellsstrandarhrepps er þess að geta, að á þessari landleið eru ýmsar torfærur, og skal ég sérstaklega nefna stóra á, sem getur verið hættuleg og oft afarerfitt að koma fé yfir hana á haustin. Það er Kjallaksstaðaá. Á þessari leið er opinber stofnun, Staðarfellsskólinn, og þeirri stofnun er það nauðsynlegt, að sem bezt flutningabraut sé frá Búðardal, og ekki sízt vegna þess, að sjóferðir eru stopular, og vill út af bregða, að skip ríkisins vilji láta staðar numið hjá Staðarfelli til að bæta úr þessu hvimleiða ástandi. Þetta væri ekki eins bagalegt, ef lagður væri bílvegur að Staðarfelli, sem þá mætti vænta, að yrði flutingaleið. Ég sé, að hv. samgmn. hefir flutt brtt., sem bætir úr þessum vandkvæðum að því er Staðarfellsskóla snertir, og er ég henni þakklátur fyrir það, að hún hefir tekið upp þessa till. og nær það þakklæti mitt jafnlangt og úrlausnin.

Ennfremur skal ég geta þess, að hér er um þá sveit að ræða, sem þykir bera af öðrum sveitum um náttúrufegurð, og má vænta þess, að ferðamenn telji það mikinn kost, að þarna komi góður vegur. Það er margra manna mál, að útsýn sé óvíða fegurri en af Klofningi yfir Breiðafjörð.

Ég hefi oft orðið þess var í viðtali við útlendinga, þegar þeir heyra, að hér sé jörð, sem hafi verið í eigu sömu ættarinnar í 8 aldir, að þá langar til að koma þangað, og spyrja, hvernig vegur sé þangað, og þetta höfuðból er á þessari leið. Hv. frsm. viðurkenndi, að þessi brtt. ætti í raun og veru rétt á sér, og get ég einnig goldið þeim ummælum þakklæti mitt, svo langt sem þau orð ná, en ég get hinsvegar ekki sannfærzt af þeim rökum, sem hann flutti fram á móti brtt. minni. Hann vildi ætla, að oft væri lítil bót að því fyrir sýslur að fá vegi tekna í þjóðvegatölu, því oft væri svo vel búið að sýsluvegum, að það mætti þykja eins gott. Ég skal ekki fara, út í þessa sálma almennt, en það á ekki við um þennan veg, og sízt þegar horfur eru á, að framlagið til sýsluveganna verði lækkað, svo sem nú horfir til á þessu þingi. Ég get fullvissað hv. frsm. um, að það er ofmælt hjá honum, þegar hann er að gefa í skyn, að Dalasýsla hefði ekkert eftir af vegum til að annast um, ef þessi vegur væri tekinn í þjóðvegatölu. Hann vildi ætla, að í Haukadal væri sjálfgerður bílvegur, en það vantar mikið á. Það kann að vera, að þegar gott er að sumarlagi, þá sé hægt að komast upp fyrir vatnsendann, en það er ekki nemur þegar bezt er, og þar fyrir framan er löng byggð; og meðfram vatninu kyngir niður snjó, svo að með þeim lítilfjörlega vegi, sem þar er má oft heita að ófært sé fyrir þá, sem þurfa að vitja læknis eða fara í öðrum nauðsynja erindum. Það er þess vegna svo, að þótt ekki sé talinn nema þessi eini dalur, þá er þar mjög mikið verkefni framundan. Auk þessa eru svo Hörðudalur, Laxárdalur o. fl. o. fl., svo það er fjarri sanni að segja, að ekki séu næg verkefni fyrir sýsluna, þótt þessi vegur sé tekinn í þjóðvegatölu. Auk þess get ég bætt því við, að ég geri ráð fyrir, að sýslufélagið hefði ekkert á móti því að leggja nokkuð fram til þessa vegar, þótt hann væri tekinn í þjóðvegatölu, þar sem þörfin er svo brýn, en sýslubúum er það um megn að kosta þær brýr, sem eru á þessari leið, og er það ekki sízt vegna þeirra, sem ég hefi lagt áherzlu á, að þessi vegur sé tekinn í tölu þjóðvega.

Ég get ekki verið samþykkur skoðun hv. frsm., og mælist ég til þess, að hv. d. taki þessari brtt. minni vinsamlega.