15.04.1936
Efri deild: 49. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í B-deild Alþingistíðinda. (859)

88. mál, vegalög

*Jón Auðunn Jónsson:

Ég vil segja fáein orð út af brtt. minni á þskj. 320, um að tekinn verði í þjóðvegatölu vegur frá Ísafirði um Arnardal til Súðavíkur. — Það er kunnugt, að það er minna um þjóðvegi í Ísafjarðarsýslu en annarsstaðar, og stafar það að nokkru leyti af því, að aðstæður þar eru vondar, en þó vil ég fullyrða, að þessi vegur, sem er um 16 km., muni eiga fullan rétt á sér. Að vísu er á köflum nokkuð erfitt að leggja þennan veg, og má gera ráð fyrir, að hann kosti um 30 þús. krónur. En hann mundi setja landbúnaðinn í Álftafirði í samband við Ísafjörð og þorpið í Súðavík, og mundi það verða til mikilla hagsbóta fyrir bændur og flýta mjög fyrir ræktun í Álftafirði. Ég veit, að það eru margar till., sem hér liggja fyrir sem síður bæri að samþ. og síður yrðu samþ., ef hv. þdm. hefðu næga þekkingu á þeirri þörf, sem er fyrir þennan veg.

Út af þeim orðum, sem féllu hjá hv. frsm. um Krýsuvíkurleiðina, vil ég taka það fram, að ég hafði fyrirvara um það sakir þess, að ég hafði ekki átt kost á að kynna mér það atriði nægilega, og ég held, að það sé a. m. k. ótímabært að samþ. þá leið, og sýnist betur henta að samþ. till. hv. 2. þm. Rang.