15.04.1936
Efri deild: 49. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 613 í B-deild Alþingistíðinda. (861)

88. mál, vegalög

Magnús Guðmundsson:

Ég á tvær brtt. á þskj. 321 viðvíkjandi tveim vegum í Skagafirði, þ. e. Skagaveg frá Sauðárkróki um Heiði, Laxárdal og Skaga að Hrauni, og hinn frá Víðimýri að Goðdölum. Mér skildist á hv. frsm. samgmn., að þessir vegir hefðu ekki fundið náð fyrir augum hans. Honum fannst, að ef þessir vegir væru teknir í þjóðvegatölu, þá væru engir vegir eftir sem sýsluvegir. Ég held, að hv. frsm. sé þessu heldur ókunnugur, en ég get upplýst fyrir honum, að þó eru eftir margar sveitir, t. d. Sæmundarhlíð, Reykjaströnd og allir dalirnir austan fjarðarins, sem munu vera 5. Um öll þessi svæði þarf vegi, svo það er sannarlega nóg verkefni eftir, þó þessir vegir gangi frá.

Hv. frsm. gerði mikið úr því, að upp væri tekinn vegurinn frá Grundarstokk á veginn fyrir norðan Gljúfurá. Auðvitað er ég þakklátur fyrir það, en þessi vegur er fremur stutt leið. Ég skal upplýsa, að í þessa vegi, sem ég flyt brtt. um, er sýslan búin að leggja stórfé. T. d. er Skagavegurinn orðinn bílfær að Heiði, eða nokkru lengra, en svo þarf hann auðvitað viðhald og framlengingu um Laxárdalinn og út Skagann. — Ég vil leiðréttu þær ýkjur, að Hraun sé úti á Skagatá; þangað er alllangt frá Hrauni. — Ég hefi leitazt við að athuga, hvaða vegir hafa verið teknir upp í þjóðvegatölu í frv., og ég verð að segja, að það er ekki minni sanngirniskrafa um þessa vegi en marga aðra, sem teknir hafa verið. Ég vil því vænta, að hv. n. setji sig ekki á móti því, að þessir vegir verði teknir með, þar sem þeir eru sveitunum bráðnauðsynlegir, einkum þegar mjólkurbúið er komið upp í héraðinu og aðflutningar þurf, að vera því greiðari. Á sumrum er bílfær kafli út eftir Skaganum og einnig frá Víðimýri nokkuð frameftir, stundum jafnvel alla leið að Goðdölum. — Það þarf vitanlega mikið fé í alla þessa vegi, en það má skoða sem hjálp til sveitarfélaganna, og það er ekkert álitamál, að fyrir mitt kjördæmi eru þessir vegir miklu meira virði en sá stutti kafli frá Grundarstokk að Gljúfurá, sem tekinn er upp í frv.

Ég hirði svo eigi að fara fleiri orðum um þessu vegi. En hv. frsm. nefndi Vatnsskarðið sem sérstaka leið fyrir Skagafjörð, en það er vitanlegt, að það er alfaraleið milli sýslna og landsfjórðunga, og því alls ekki sérstaklega fyrir Skagfirðinga. Svipað er að segja um leiðina yfir Lágheiði.

Ég get ekki stillt mig um að fara nokkrum orðum um Krýsuvíkurleiðina. Það er auðséð, að stórum aukinn kostnaður verður við alla þessa nýju þjóðvegi, jafnvel þó Krýsuvíkurvegurinn gangi undan. Það er eins og opnazt hafi ný peningalind fyrir hv. stjórnarflokkum síðan í fyrra, því að þá vildu þeir lækka framlög til sýsluveganna. (JJ: Það var Jón á Reynistað). Nei, það var hv. þm. S.-Þ., sem stóð fyrir því í fyrra, en svo er stefnufestan ekki meiri en það, að nú kemur þessi sami maður með millj. vegi, sem hann vill láta ríkissjóð taka á sínar herðar. Ég skil ekki, hvaða peningalind þeir hafa fundið, sem þeir ætla að ausa úr á næstu árum. Og veigaminni rök hefi ég sjaldan heyrt fyrir máli en fyrir þessum vegi. Þetta mál má heita órannsakað, en hingað til hefir það ekki þótt ráðlegt að taka nýjar leiðir í þjóðvegatölu fyrr en búið væri að athuga þær vel og rannsaka, t. d. hvað lengi þær væru færar o. s. frv. Annars skal ég benda á, að þskj. 315, sem flytur veigamiklar upplýsingar frá vegamálastjóra, var ekki útbýtt fyrr en í dag, og hefi ég því ekki séð það fyrr en á fundi í morgun, og finnst mér það til nokkuð mikils mælzt, að þm. taki afstöðu til málsins eftir stundar athugun á einum fundi. Ég get ekki neitað því, að mér finnst till. hv. 2. þm. Rang. mun skynsamlegri. Hann vill ekki sem þm. kjördæmis austanfjalls fórna Þrengslaveginum fyrir lítið öruggari en miklu lengri leið um Krýsuvík. En hann vill einnig bæta úr þeirri þörf, sem er á að bæta samgöngur milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Og ég sé enga ástæðu til þess, að láta það liggja í láginni, að sú saga gengur í þinginu, að þessi leið sé fundin af hv. þm. Hafnf. til þess að fá samgöngur við Krýsuvík. Ég segi bara söguna eins og hún gengur, að þetta muni vera nokkurskonar fórn á altari samvinnunnar milli stjórnarflokkanna. Hinsvegar sé ég, að vegurinn kostar of fjár og verður ekki lagður nema á löngum tíma. Ég vil því taka undir till. hv. 2. þm. Rang. um að taka fullt tillit til þarfa Hafnarfjarðar, en mér þykir undarlegt, ef fórna á hagsmunum Árnesinga og Rangæinga fyrir hagsmuni Hafnfirðinga. þegar boðið er að bæta aðstöðu Hafnfirðinga án þess að skerða rétt Sunnlendinga.