16.04.1936
Sameinað þing: 13. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

1. mál, fjárlög 1937

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það er aðeins út af ummælum hv. 3. þm. Reykv. hér í dag, sem ég ætla að segja nokkur orð. Hann mælti fyrir þeim fyrirvara, sem hv. sjálfstæðismenn í fjvn. hafa gert við undirskrift nál. þeirrar n., þar sem þeir gera ráð fyrir, að niður megi fella tvo tekjuliði fjárl., sem nú eru í fjárlfrv. og áætlað er að geti 1 millj. 400 þús. kr. í tekjur. Og þeir halda fram, að þetta mundi vera óhætt án þess að gera nokkrar sérstakar ráðstafanir til þess að vega þar á móti, af því að tekjuáætlun frv. sé svo gætilega samin, að gera megi ráð fyrir, að ýmsir tekjuliðir frv. fari fram úr áætlun. Ég vil nú út af þessu benda hv. þm. á það, að ef hallazt væri að þessu ráði, þá þyrftu tekjurnar að vera ekki aðeins of hátt áætlaðar, sem nemur þessum 1 millj. og 400 þús. kr., heldur sem þessu nemur og til viðbótar þeim halla, sem sennilega mun verða samþ. við þessa umr., líka. um 400 þús. kr., og enn til viðbótar því, sem kann að verða samþ. til viðbótar útgjöldunum við 3. umr. Mér þykir ekki ósennilegt, að það mundi nema alls um 2 millj. kr., sem tekjuliðirnir þyrftu að vera of hátt áætlaðir, til þess, að skoðun hv. sjálfstæðismanna gæti staðizt. Þeir byggja skoðun sína á því, að tekjuliðirnir eru áætlaðir 1900000 kr. lægri en tekjurnar reyndust 1935. Aðalliðirnir, sem gera þennan mismun, eru þessir: Tekjuskatturinn er áætlað að gefi um 350 þús. kr. minna en 19355. Og hv. sjálfstæðismenn viðurkenna, að það sé réttmætt að ætla það. Um áfengistollinn, sem gert er ráð fyrir, að gefi 200 þús. kr. minna í tekjur 1937 heldur en 1935, er það að segja, að nú er sýnt, að sala áfengis verður töluvert minni árið 1936 heldur en hún var 1935. Það er eðlilegt, þegar litið er til þess, að fyrst eftir að vínbanninu var aflétt, var salan óeðlilega mikil, og hinsvegar, að valandi atvinnuvandræði hafa dregið úr sölunni a. m. k. nú sem stendur. Það er ekki hægt að búast við að árið 1937 verði betra tekjuár í þessu tilliti heldur en árið 1936. Rekstrarágóði áfengisverzlunarinnar er áætlaður í fjárlagafrv. 400 þús. kr. lægri en á síðasta ári. En fyrirsjáanlegt er, að hann verður mun lægri en í fyrra vegna þess, að salan dregst saman. Ennfremur kemur líka það til álita, að útsvör verzlunarinnar, sem færð verða á reikningum hennar 1936 og 1937 verða miklum mun hærri en útsvarið, sem fært var á reikningi hennar árið 1935, þar sem þau (1936 og 1937) verða reiknuð eftir hærri tekjum heldur en útsvarið, sem fært var 1935, sem reiknað var eftir tekjum verzlunarinnar 1934. Þá vil ég einnig benda á það, að ekki er hægt að gera ráð fyrir öðru en að það verði að spara eitthvað gjaldeyri til innkaupa á áfengum drykkjum. m. a. með því að færa saman kaup á dýrari tegundum þeirra. Mun það óhjákvæmilega hafa í för með sér lækkun á tekjum áfengisverzlunarinnar og á tolltekjum af áfengi fram yfir það, sem ætti sér stað, ef verzlunin gengi sinn eðlilega gang. Með þessu öllu verður því að reikna.

Þá hefi ég minnzt á þrjá af þessum liðum, tekjuskattinn, áfengistolinn og áfengisverzlunarágóðann. Og ég hygg, að engum blandist hugur um það, sem athugar þessa liði eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja og ekki er tækifæri til að taka hér nákvæmlega fram í ýmsum atriðum við þessar umr., að ekki er gerlegt að áætla þessa tekjuliði hærra en gert er í frv.

Þá eru aftur 3 liðir, sem áætlaðir eru lægra 1937 en þeir reyndust í fyrra. Tekjur af kaffi- og sykurtolli eru áætlaðar l50 þús. kr. lægri í frv. en þær reyndust í fyrra. Það er kunnugt, að framan af þessu ári hefir verið dregið nokkuð úr innflutningi þessara tollvara, og ég hefi grun um, að eitthvað verði að klípa af þeim innflutningi einnig árið 1937. Sá liður er alls ekki áætlaður fjarri því, sem gera má ráð fyrir. En það hefi ég þó hugsað mér, að þar sem hækkaðir verða tekjuliðir fjárl., þá verði þessi liður hækkaður um 100 þús. kr.

Um vörutollinn er það að segja, að hann er áætlaður að gefa 290 þús. lægri tekjur 1937 heldur en 1935. Það er byggt á þeim innflutningshorfum, sem nú eru. Ekki er hægt að reikna með því eftir núverandi ástandi, að hægt verði að draga úr innflutningshömlum á árinu 1937 frá því, sem er.

Verðtollurinn er áætlað að gefi 350 þús. kr. minna í tekjur 1937 heldur en 1935, sem gert er með tilliti til þess, að verð færist niður á verðtollsvörum frá því, sem var 1935, og sýnilegt er, að verðtollurinn gefur miklu minni tekjur árið 1936 heldur en 1935.

En ég geri ráð fyrir, að þar sem hækkun verður kannske á tekjum af sumum liðum í tekjuáætluninni, þá sé samt ekki fært að reikna með því, að sú lækkun geri mikið betur en að vega upp á móti þeim halla, sem kominn verður á fjárlagafrv. eftir 2. umr. Ég geri ráð fyrir, að þegar þeirri umr. er lokið, með þeim breyt., sem við umr. kunna að verða gerðar á frv., þá verði að hækka kaffi- og sykurtollinn, vörutollinn og verðtollinn. Þegar búið verður að hækka, þessa liði til þess að afnema hallann á fjárlagafrv., þá er ég sannfærður um, að enginn muni geta haldið því fram, að þessir liðir muni geta eftir núverandi útliti gefið miklar tekjur umfram það, sem þeim verður þá ætlað að gefa. Þá mun hv. þm. sannfærast um það, að ef ætti að fella niður þá tekjuliði, sem talað hefir verið um, þá yrði jafnframt að lækka útgjaldaliði frv., en ekki að treysta á umframtekjur fram yfir þær sem nú eru áætlaðar í frv.

Ég vil ennfremur benda á þá staðreynd, sem er alviðurkennd, að hversu vel sem menn áætla útgjöld á fjárl., sem ég vil halda fram, að sé nú reynt í sambandi við þessi fjárl. að gera sem bezt, því er aldrei hægt að gera ráð fyrir öðru en að einhverjar umframgreiðslur eigi sér stað og þess vegna verða alltaf að vera einhverjar líkur til, að tekjurnar fari fram úr áætlun fremur en að þær standist ekki.

Þegar þessi rök öll eru athuguð, verður niðurstaðan hjá öllum sanngjörnum mönnum sú að það er ekki hægt að leggja upp með þær útgjaldaupphæðir, sem eru í fjárlagafrv. ásamt þeim, sem gera má ráð fyrir, að við bætist við 2. og 3. umr. fjárl., nema með því að halda sér við því tekjustofna, sem nú er gert ráð fyrir í frv. — Annars geri ég ráð fyrir að hv. fjvn. muni athuga þetta nánar fyrir 3. umr., og þá gefst kostur á að ræða nánar þessi atriði.

Ég ætla ekki að fara út í að ræða einstakar brtt. við fjárlagafrv. Þó vil ég aðeins minnast nokkrum orðum á brtt., sem hv. 10. landsk. og hv. þm. V.-Húnv. gera við 22. gr. frv., og hv. 10. landsk. mælti fyrir áðan. Hún er um það að heimila ríkisstj. að verja ákveðinni upphæð til þess að bæta bændum í vissum landshlutum upp skaða þann, sem þeir hafa orðið fyrir vegna harðinda í vetur. Hv. 10. landsk. sagði í því sambandi, að hann hefði búizt við því, að aðrir aðiljar fyndu hvöt hjá sér til að rannsaka þetta mál og flytja um það till. Ég vil nú segja hv. 10. landsk. það, að ef enginn hefði verið fyrr á ferðinni en hann til að skipta sér af þessum málum, þá mundi nú vera farið verr á þessum svæðum heldur en orðið er. Ég get upplýst þennan hv. þm. um það, að frá því, er fyrst fór að bóla á harðindum á þessum svæðum á þessu ári, hefir ríkisstj. fylgzt nákvæmlega með því máli, og hún hefir hlaupið undir baggann með þessum harðindahéruðum með því að láta senda þeim fóðurbæti þar sem menn ekki hafa haft bolmagn til að útvega sér hann á eigin spýtur. Um greiðslu á þessum fóðurbæti, sem keyptur hefir verið af bændum, kaupfélögum og hreppsfélögum sumpart fyrir þeirra eigin atbeina og sumpart með stuðningi ríkisstj., sem útvegaði fóðurbætinn, er það að segja, að það er óuppgert um það mál. Vitanlega er það viðurkennt af öllum, að jafnvel þótt harðindi beri að höndum, sem má líkja á sinn hátt við aflaleysið hjá útvegsmönnum og önnur slík vandræði, þá verði þeir eftir getu, sem fyrir skakkaföllunum verða, að mæta afleiðingum þess. Það er líka viðurkennd staðreynd í þessu sambandi, að þar, sem geta einstaklingsins ekki hrekkur til, þá er það skylda hreppsfélagsins að hjálpa. Það er t. d. þannig í ýmsum tilfellum, að þeir hreppar, sem hlut eiga að máli og eiga ónotaða möguleika til þess að taka bjargráðasjóðslán, þeir munu vitanlega nota þá möguleika til fulls. Þegar þessir tveir möguleikar hafa verið notaðir til fulls, geta einstaklinganna til þess að taka afleiðingum harðindanna og þessi lántökumöguleiki, þá verður vitanlega hið opinbera að hlaupa á einhvern hátt undir baggann að því leyti, sem þessir tveir möguleikar ekki hrökkva til. Og ekki er því að leyna, að þegar fóðurbæti hefir vantað á harðindasvæðunum í vetur og leitað hefir verið út af því til ríkisstj., þá hefir hún tekið þá afstöðu til þess máls að slá því föstu, að fóðurbætinn yrði að útvega, hvað sem öðru liði, og koma honum á þá staði, þar sem þörfin var fyrir hann, og síðan yrði svo að gera upp eftir á um greiðslurnar, og ef það dæmdist svo, að hlutaðeigendur gætu ekki staðið straum af fóðurbætikaupum þessum, þá yrði hið opinbera að hlaupa undir baggann.

Það er þess vegna mjög fjarri því, að hv. 10. landsk. farist að tala á þá leið, að engir aðrir en þeir hv. þm. V.-Húnv. og hann hafi fundið hvöt hjá sér til að rannsaka þetta mál og flytja till. um það, því að málið hefir verið rannsakað um langan tíma og mikið hefir í því verið gert. Því er það, eins og ég sagði áðan, að ef enginn hefði orðið fyrri til en þessir hv. þm. um aðgerðir í þessu máli, þá hygg ég, að öðruvísi líti út á þessum harðindasvæðum en þó raun er á. En um endanlegar ályktanir stj. viðvíkjandi hjálp hins opinbera í þessu efni er ekkert hægt að gefa upp að svo komnu. Um slíkt er ekki eðlilegt að ákveða fyrr en séð verður, hver geta er hjá einstaklingum og hreppsfélögum. Þá fyrst, ef hið opinbera verður að veita beina hjálp, mun leitað verða staðfestingar Alþingis á því loforði, sem stj. varð að gefa fyrir fram um þetta efni í því trausti, að að baki hennar yrði staðið af löggjafarvaldinu.

Skal ég svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en aðeins taka það fram, sem hv. þm. og þjóðinni er ljóst, að erfiðleikar eru nú svo almennir og hjá svo mörgum, t. d. mikið aflaleysi í sjávarþorpum og annað slíkt aðsteðjandi, að það verður að fara ákaflega gætilega í öllum þessum málum, og það verður vitanlega að miða við það, að einstaklingar hljóti að verða að standa við greiðslur vegna þessara erfiðleika eins og þeim er frekast mögulega fært, og fyrirgreiðsla þess opinbera kemur því aðeins til greina í þessu efni, að geta einstaklinga ekki hrökkvi til. Það er mál, sem verður að líta á með mjög mikilli gætni, hve langt á að fara í því að flytja greiðslur fyrir þennan fóðurbæti yfir á hið opinbera.