24.04.1936
Neðri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í B-deild Alþingistíðinda. (875)

88. mál, vegalög

*Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Í ræðu minni áðan gerði ég ekki að umtalsefni þær brtt. við frv., sem fram eru bornar af einstökum hv. þm. við þessa umr. Þessar brtt. eru á þrem þskj., nr. 390, 399 og 405. Sumar af þessum brtt. eru svo nýlega til komnar, að samgmn. hefir ekki unnizt tími til að taka þær til athugunar. Áðan var ég að athuga möguleika til þess að ná n. saman til þess að athuga þær, en það reyndist ekki gerlegt þá. Þess vegna get ég ekki að svo stöddu lýst yfir neinu áliti fyrir hönd samgmn. um þessar brtt. Vil ég því skjóta því til hv. flm. brtt. hvort þeir telji ekki rétt að taka þær aftur til 3. umr., til þess að bæði samgmn. og einstökum þm. gefist kostur á að athuga þær nánar.

Annars vil ég í sambandi við þetta minna á það, að þetta mál er komið frá hv. Ed. og hefir fengið allrækilega meðferð þar, að ég hygg. Ég hygg, að ef frv. yrði breytt hér í Nd., þá gæti það orðið til þess e. t. v., að frv. gengi ekki fram að þessu sinni. Ég vil aðeins vekja athygli á þessu þeim til athugunar, sem hafa áhuga á því, að ýmislegt af því gangi fram, sem frv. felur í sér.

Hv. 11. landsk. flytur hér brtt. á þskj. 405, þess efnis að fella niður fyrsta lið frv., þ. e. a. s. ákvæðin um, að Suðurlandsvegur skuli vera tvískiptur, önnur leiðin um Lækjarbotna, en hin leiðin um Hafnarfjörð, Krýsuvík og Selvog. Þetta vill hv. 11. landsk. fella niður, og er ég nú dálítið undrandi yfir því, ekki sízt vegna þess, að í ræðu sinni áðan skildist mér á honum, að hans stefna í þessu máli væri sú, að halda öllum möguleikum opnum fyrir vegalagningu hér á milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins. Að vísu var orðalag hans um þetta nokkuð óákveðið. Hann komst svo að orði, að hann vildi velja þá skemmstu leið, sem væri forsvaranleg og örugg. Og hann vildi halda því fram, að ef farið væri eftir þessari reglu, þá yrði það leiðin um Þrengslin, sem væri skemmst af þeim leiðum, sem tiltækilegar væru. En mér virðist, að hv. 11. landsk. ætti að endurskoða betur þessa afstöðu sína til málsins og einnig athuga það betur, hvað frv. felur í raun og veru í sér. Því að þó að frv. sé samþ. í þeirri mynd, sem það er í þessu efni, þá er þar með ekki gefin nokkur fyrirskipun um það, að vegurinn skuli lagður þessa syðri leið, og ekki verið að banna að leggja hann um Þrengslin. Það, sem frv. felur í sér, er að halda möguleikunum opnum til þess að leggja veg um hvora þessa leið fyrir sig. Eins og bent hefir verið á, verður sjálfsagt byrjað á vegarlagningu á þeim kafla, sem ekki er um deilt, austan fjalls. Og á meðan sú vegarlagning fer fram, má vitanlega athuga þetta vegalagningamál nánar. Hinsvegar er það svo, að hugir manna stefna meira og meira að því, að leiðina til þess að leggja veginn um austur beri að velja ekki einungis með tilliti til þess, að hann sé sem stytztur, ekki heldur fyrst og fremst með tilliti til þess, að hann sé sem ódýrastur, heldur að hann sé, ásamt þessu tvennu, eftir því sem því verður við komið, alltaf fær árið um kring og að hann því geti komið að sem mestum notum fyrir héruðin austan fjalls. Og ég hygg, að hv. 11. landsk. ætti að gjalda mjög varhuga við því að fordæma þá heimild, sem í frv. felst til að leggja veg um Reykjanesleiðina, eftir að fullnaðarrannsókn hefir farið fram í því efni. Það er alveg rétt, að fullnaðarrannsókn hefir ekki farið fram enn á þessu vegarstæði. En ég vil út af því, sem hv. 11. landsk. sagði í síðustu ræðu sinni, segja honum það, að það hefir ekki verið ófrávíkjanleg regla — síður en svo — að leiðir, sem teknar hafa verið í þjóðvegatölu, hafi verið þrautrannsakaðar áður en slíkt var ákveðið. Oft og tíðum hefir það verið þannig, að þá fyrst, er búið var að ákveða þjóðvegarlagningu á einhverju svæði, þá fór fram sú endanlega rannsókn og kostnaðaráætlun um vegarlagninguna.

Ég get fyrir mitt leyti sagt það um þessa brtt., sem er allt annars eðlis en allar hinar, að ég er henni algerlega mótfallinn. Ég vil láta haldast þennan möguleika til þess að geta valið um það, hvort af þessum tveim leiðum verður farin um þessa vegarlagningu austur. Og á samgmn.fundi kom ekki heldur annað fram en að nm. vildu láta þessa heimild haldast í frv.

En ég vil sem sagt skjóta því til hv. flm. brtt., eins og ég áður tók fram, að þeir taki þær aftur til 3. umr.