24.04.1936
Neðri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 627 í B-deild Alþingistíðinda. (876)

88. mál, vegalög

*Eiríkur Einarsson:

Hv. þm. N.-Þ. sagði, að það ætti sér oft stað, að þessi eða hin leið væri tekin í þjóðvegatölu, áður en full rannsókn hefði farið fram um vegarstæðið, og það má vel vera. En ég sagði annað áðan, sem ég stend við, að um allur dýrari vegagerðir, ekki sízt ef um vegi er að ræða, sem eiga að vera frambúðarvegir fyrir stór héruð, þá verður ekki um það villzt, hvort réttara og formlegra og ég vil segja forsvaranlegra er að láta fara fyrst fram rannsókn eða lögfestingu á veginum. Það er beint siðferðisleg skylda Alþingis, að hafa rannsakað til hlítar það mál, sem hér er um að ræða, áður en það lögfestir val á leiðinni til að leggja þennan veg. Það getur verið, að það hafi átt sér stað, að rannsókn hafi farið fram eftir á um stutta vegarspeli á milli sveita, þegar þeir hafa verið teknir í þjóðvegatölu. Þá hefir það verið látið gilda, að miðað hefir verið við, að rétt hafi verið farið með um þá vegi af hlutaðeigandi aðiljum, sem um slíkt hafa sótt. Og er slíkt, þegar um stutta vegi er að ræða, gerólíkt þessu, sem hér er um að ræða, að leggja mjög langan og dýran veg.

Það er eins og hv. þm. Hafnf. hafi þótt það óeðlilegt, að ég vildi slá því föstu, að það ætti að velja hér á milli þessara leiða þannig að kjósa þá skemmstu leið til vegarlagningar austur, sem forsvaranleg er og örugg. Hann sagði, að skemmsta leiðin væri sú, sem nú er farin. En er ekki verið að reyna að finna veg til að hafa sem öruggan vetrarveg? Það er ekki fyrst og fremst hér til umr., hvaða vegur er skemmstur. Er ekki leiðin, sem nú er farin, talin óforsvaranleg sem vetrarvegur? En það skemmsta af því örugg, (sem vetrarleið) er leiðin um þrengslin. Og þess vegna þarf eitthvað nýtt að koma fram til þess að afsanna, að svo sé, og hnekkja áliti vegamálastjóra í þessu efni, til þess réttmætt megi teljast að taka ekki þá leið.

Nei. Að segja, að ég sé að beita mér á móti þessum vegi um Krýsuvík, af því að ég í sjálfu sér sé á móti því að leggja þurfi þar veg, er ekki rétt. En mér virðist tónninn vera sá í sókn þessa máls, að þann veg sé haft í hyggju að leggja á kostnað Þrengslabrautarinnar, og að það eigi að koma á Krýsuvíkurvegi í stað Þrengslabrautar. En þessari fyrirætlun mótmæli ég, á meðan það er ekki afsannað, að Þrengslaleiðin sé sú skemmsta forsvaranlega og örugga leið á milli Rvíkur og Suðurlandsundirlendisins.