24.04.1936
Neðri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (878)

88. mál, vegalög

*Emil Jónsson:

Ég ætla aðeins að beina þeim orðum mínum til hv. 11. landsk., af því að honum fannst það mjög óviðeigandi af minni hálfu, að ég vildi — reyndar ekki ég einn, heldur margir hv. þm. — láta lögfesta þessi leið sem þjóðveg áður en rannsókn um hana færi fram. En það liggja til þessa alveg sérstakar ástæður, nefnilega þær, að ákveðið er að byrja á þessari vegarlagningu í sumar. Það er mögulegt að leggja fram fé til hennar, um 70 þús. kr., til þess að byrja á þessum vegi. En svo er einnig möguleiki til þess — og ég veit, að um það hefir verið talað — að nota eitthvað af því fé, sem Rvík og Hafnarfjörður fá til atvinnubótavinnu, til þessarar vegarlagningar austur. En það er því aðeins hægt, eða að mér skilst miklu fremur hægt, ef leiðin um Krýsuvík verður valin. Það er miklu óþægilegra og e. t. v. ógerlegt að nota það fé til vegalagninga uppi á Hellisheiði. En það er fram á vetur hægt að hafa menn við það að ryðja hraunið.

Rannsókn á þessari Reykjanesleið þarf ekki að taka nema 2–3 mánuði. En eftir þann tíma, et rannsókn leiðir í ljós, að þessi leið álízt hagkvæm, er ekki hægt að nota þetta fé til þessa vegar, sem til hans mætti annars nota, ef ekki liggur fyrir ákvæði í l. um, að það megi velja þennan veg, eftir að rannsókn hefir farið fram með áðurnefndum árangri. Það er einungis þetta, sem vakir fyrir flm., að það sé ekki útilokað, að þessa leið megi velja, ef hún álízt heppilegust að undangenginni rannsókn. En verði vegur þessi felldur út úr frv. nú, þá er ekki hægt að taka hann upp aftur fyrr en á næsta þingi. Að samþ. brtt. hv. 11. landsk. getur því orðið til þess að fresta vegarlagningu þessari hér sunnanlands um eitt ár.