24.04.1936
Neðri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 628 í B-deild Alþingistíðinda. (879)

88. mál, vegalög

*Jakob Möller:

Ég hefi verið að furða mig á því, eins og hv. 11. landsk., hversu mikið kapp hefir verið lagt á að koma þessum umrædda Krýsuvíkurvegi inn í vegalögin, áður en leiðin hefir verið rannsökuð. En enda þótt ég væri mjög hissa á þessu, þá var ég þó ennþá meir hissa á því, sem upplýstst hefir undir þessum umr., að nú þegar skuli veru búið að ákveða, að þær 70 þús., sem veittar eru til Suðurlandsbrautar í ár, skuli eiga að ganga til þessa vegar.

Ég skal svo með nokkrum orðum athuga mál þetta eins og það liggur fyrir. Í vegalögunum segir svo um Suðurlandsveginn, að hann liggi frá Reykjavík um Ölfus og Flóa o. s. frv. En nú á að breyta þessu. Hv. þm. Hafnf. heldur því fram, að við, sem ekki viljum samþ., eins og sakir standa nú, að Krýsuvíkurleiðin sé beinlínis ákveðin með lögum, séum á móti henni, viljum útiloka hana. En þetta er ekki rétt. Það er hann og þeir, sem honum fylgja að málum, sem vilja útiloka Þrengslaleiðina. Við viljum ekki útiloka neina ákveðna leið, eða ákveða neina ákveðna leið, fyrr en fullkomnari rannsóknir hafa farið fram. Lögin segja aðeins það, að Suðurlandsvegurinn skuli teljast frá Reykjavík um Ölfus og Flóa, en hvar hann skuli liggja héðan og austur í Ölfus, er ekkert sagt um. Allar leiðirnar, sem um er deilt, geta því fallið undir þetta. En með frv. á að ákveða eina sérstaka leið. En nú stendur svo á, að Krýsuvíkurleiðin er sú eina, sem komið hefir til mála að fara, sem ekki hefir verið rannsökuð. Það er aðeins gengið út frá því, að hún sé snjólétt, án þess þó, að það hafi verið rannsakað. Hinsvegar hefir Þrengslaleiðin verið rannsökuð undanfarin ár, og á þskj. 315 liggja fyrir upplýsingar um þetta frá Geir Zoëga vegamálastjóra. Þar segir svo meðal annars: „Mest varð flutningateppan vegna snjóa veturinn 1930–31, og stóð þá nær samfellt í 3 mánuði, janúar, febrúar, marz. Á þeim tíma fór fram athugun á snjóalögum á vegstæðinu um Þrengslin, og má fullyrða, að vegur á þeirri leið hefði þá aldrei teppzt.“ Þessi rannsókn á vegstæðinu um Þrengslin var gerð einn hinn mesta snjóavetur, sem komið hefir nú um lengri tíma, en þó er fullyrt, að vegna snjóa hefði sú leið aldrei teppzt þann vetur, ef vegur hefði verið kominn þar. Um Krýsuvíkurleiðina liggur aftur á móti ekkert slíkt fyrir. Þar hafa engar rannsóknir verið gerðar á fannalögum eða öðru, svo teljandi sé. Annars er það svo, að það er engin fullkomin vissa fyrir því, að sá vegur eða sú leið, sem liggur lægra yfir sjávarflöt en önnur, sé snjóléttari. Snjóalögin fara svo mjög eftir öðrum staðháttum, svo sem landslagi o. fl. Það getur því vel verið, að á þessari Krýsuvíkurleið séu kaflar, sem fyllast af snjó um lengri eða skemmri tíma, enda þótt hún liggi lægra en Þrengslaleiðin. Þetta finnst bæði mér og fleirum, að þurfi að rannsaka, að minnsta kosti áður en hún er tekin fram yfir aðrar leiðir, sem töluvert er búið að rannsaka. Mér kemur vitanlega ekki til hugar, að Krýsuvíkurleiðin komi ekki til mála, enda þótt hún sé 32 km. lengri en Þrengslaleiðin, ef rannsóknir leiða það í ljós, að hún sé snjóléttari og jafnframt hitt að ekki sé því dýrara að leggja þar veg. Í þessu sambandi koma líka til greina hagsmunir Hafnarfjarðar, sem að sjálfsögðu er fullt tillit takandi til, ef þeir ekki tekast á hugsmuni þeirra, sem veginn fyrst og fremst þurfa að nota.

Þegar nú svo stendur á sem hér, að leið þessa verður að velja fyrst með tilliti til þess, að hún eigi að vera aðalleiðin milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins má ekki hrapa að neinu að lítt rannsökuðu máli. Það, sem því þarf að gera hér, er að samþykkja þál. um að heimila stjórninni að láta framkvæma rannsókn á þessum vegstæðum, þó ekki rannsókn eins og hv. þm. Hafnf. minntist á, sem sé ófullkomna rannsókn, sem fari fram nú í sumar, heldur fullkomna rannsókn, sem einnig fari fram á snjóalögum að vetrarlagi á þessum leiðum, og þá sérstaklega á Krýsuvíkurleiðinni, þar sem hún hefir ekkert verið rannsökuð áður. Að þessu athuguðu tel ég ástæðulaust að taka þessa oft nefndu Krýsuvíkurleið upp í tölu þjóðvega nú, á meðan engin rannsókn hefir farið fram á henni. Það væri þvert á móti illa farið og leiðinlegt að hafa tekið hana upp í tölu þjóðvega, ef rannsóknin ætti svo eftir að leiða það í ljós, að hún væri verri en aðrar leiðir og komi því ekki til greina. Ég fæ ekki heldur séð, að það geti valdið nokkru tjóni, þó það bíði til næsta þings, því að það má halda áfram vegalagningunni í Ölfusinu og milli Þorlákshafnar og Selvogs, eins og hv. 11. landsk. flytur brtt. um. Ég vil því samþykkja þá brtt. og gæti einnig samþ. þál. um að fela stj. að láta vegamálastjórn gera ýtarlegar rannsóknir á þessum tveimur leiðum, sem deilt er um, svo gera mætti óyggjandi samanburð.