24.04.1936
Neðri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (881)

88. mál, vegalög

Thor Thors:

Ég get ekki látið hjá líða að láta í ljós undrun mína yfir þeirri meðferð, sem vegamálin hafa fengið hér á Alþingi í vetur. Það var þegar á öndverðu þingi í vetur, að ég bar fram hér í Nd. frv. til breyt. á vegalögunum. Frv. þetta varð 31. mál þingsins. Því var þá þegar vísað til samgmn., en hún virtist ekkert gera til þess að afgreiða það. En svo bera tveir þm. í Ed. fram frv. til breyt. á vegalögunum, og taka upp í það tvo af vegum þeim, sem ég bar fram í frv. mínu. Frv. þeirra tvímenninganna varð 88. mál þingsins. Á þessum mikla mun á raðtölu málanna má aftur sjá, að það var ekki fyrr en löngu eftir að ég hafði borið fram frv. mitt hér í Nd., sem frv. kom fram í Ed. Þetta virðist óneitanlega alleinkennileg afgreiðsla, sem bendir í þá átt, að það sé meira komið undir því, hvaða menn bera fram málin hér á Alþingi, en undir málefnunum sjálfum. Þrátt fyrir þetta get ég þó ekki annað en látið í ljós ánægju mína yfir því, að nokkuð af till. mínum var tekið upp í frv. í Ed.

Á síðasta þingi bar ég fram frv. um sama efni og nú, sem ekki náði fram að ganga þá, að því, er samgmn. sagði, sakir þess að vegamálastjóri hefði ekki mælt með því. En nú á að láta nokkurn hluta þess ganga fram að óbreyttu hans áliti. Annars taldi ég og tel enn, að breyt. á vegalögunum eigi að miða við þörf fólksins, en ekki till. vegamálastjóra.

Ég mun nú til samkomulags taka aftur till. um Hnappadalsveginn, en aftur á móti mun ég við 3. umr. taka upp aftur till. um Eyrarsveitarveginn. Í Eyrarsveit er nú svo háttað, að þar búa um 560 manns, en skortir eiginlega allt samband við umheiminn. Þetta er að sjálfsögðu mjög erfið aðstaða fyrir þessa afskekktu sveit, ekki sízt t. d. þegar ná þarf í lækni eða koma sjúklingum til læknis. Ég þori því að fullyrða, að margar þeirra breyt., sem nú á að gera á vegalögunum, hafa á engan hátt meiri rétt á sér en þessi. Hv. þdm. geta því með góðri samvizku greitt atkv. með henni. Annars vona ég líka, að hv. samgmn. geri bragarbót og taki till. þessa um Eyrarsveitarveginn upp í till. sínar líka.