24.04.1936
Neðri deild: 55. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (882)

88. mál, vegalög

*Frsm. (Gísli Guðmundsson:

Ég ætla aðeins að svara einu atriði úr ræðu hv. 11. landsk. Hann sagðist vilja fara með Suðurlandsveginn stytztu leiðina, sem örugg gæti talizt, og því vilji hann, að Þrengslaleiðin sé farin. En hann á bara eftir, hv. þm., að sýna fram á, að hún sé öruggari en aðrar leiðir, sem hér geta komið til greina, og ég býst við, að honum verði það erfitt. A. m. k. hafa kunnugir menn á þeim slóðum, sem ég hefi átt tal við, fullyrt við mig, að þar væri oft svo mikill snjór, að með öllu myndi ófært bifreiðum, þó að vegur væri kominn þar. (EE: Eru það ekki menn úr ferðafélaginu, sem hafa gefið hv. þm. þessar upplýsingar?). Nei, það eru menn, sem búsettir hafa verið í Árnessýslu og eru því áreiðanlega eins kunnugir þarna og hv. þm.

Það er rétt hjá hv. þm. Snæf., að hann bar fram á öndverðu þingi frv. um að taka nokkra vegakafla í Snæfellsnessýslu upp í þjóðvegatölu, og að því frv. var vísað til samgmn. N. tók frv. þetta til athugunar, og eins og venja er til um slík mál, þá sendi hún það til umsagnar vegamálastjóra. En eins og hv. þm. er kunnugt, þá kom svo síðar á þinginu fram frv. í Ed., sem var miklu víðtækara, fjallaði um marga vegi víðsvegar á landinu. Þar sem nú þetta frv. var miklu víðtækara en frv. hv. þm. Snæf., og virtist hafa mikinn byr í Ed., þá þótti n. réttara að bíða átekta og sjá, hvernig því reiddi af. Frv. þetta sigldi svo, eins og kunnugt er, hraðbyri gegnum Ed. og er nú komið hingað til 2. umr. Að sjálfsögðu hefir hv. þm. Snæf. opna leið eins og aðrir til þess að bera fram við það brtt., þó hinsvegar svo mætti virðast, að hann mætti vera ánægður, þar sem meginhluti till. hans er tekinn upp í frv. þetta. Ég get því alls ekki gengið inn á, að samgmn. eigi átölur skilið fyrir afgreiðslu vegamálanna, eins og háttv. þingmaður vildi vera láta.