16.04.1936
Sameinað þing: 13. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

1. mál, fjárlög 1937

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það voru fáein orð út af ræðu hv. 3. þm. Reykv. Hann sagði, að ég hefði ekki getið þess í ræðu minni, hve mikið ég teldi gerlegt að hækka tekjuáætlun fjárlfrv. frá því, sem nú er. Ég get svarað honum því, að ég tel ógætilegt að hækka þessa áætlun um meira en sem svarar 3–100 þús. kr. Og sú hækkun, sem ég álít koma til greina og sjálfsagt verður að hverfa að. ætti að koma að einhverju leyti á vörutollinn, að einhverju leyti á verðtollinn og að einhverju á kaffi- og sykurtollinn. Ég álít óhyggilegt að tefla framar um tekjuáætlun fyrir árið 1937 en þá væri gert.

Um það, sem hv. þm. sagði, að ef dregið væri úr innflutningi ódýrari áfengistegunda, þá gæti það aukið ágóða ríkissjóðs, því að þá ykist neyzlan á ódýrari tegundunum, sem tiltölulega meira væri lagt á — um þetta, er það að segja, að það er byggt á misskilningi. Ríkissjóður hefir meira upp úr sama alkóhólmagni í dýrari tegundunum, því að útsöluverð á þeim er meira en tvöfalt. Ég viðurkenni ekki, að hægt sé að áætla öllu meiri ágóða af áfengisverzluninni og áfengistollum en gert er í frv. Hinsvegar er ánægjulegt að fá hjá hv. sjálfstæðismönnum viðurkenningu þess, að stj. vilji afgreiða fjárl. svo gætilega, að þeir telji óviðunandi. Verður þá erfiðara fyrir þá síðar, ef áætlanir skyldu ekki standast, að áfellast stj. Þá er hægt að vísa til þess, að þeir álitu fjárl. fyrir 1937 óhæfilega gætilega afgreidd, ef svo mætti að orði komast.

Ég læt svo þetta nægja þessa umr.