23.03.1936
Efri deild: 31. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 639 í B-deild Alþingistíðinda. (929)

85. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

*Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, var flutt á síðasta þingi af fulltrúum Alþfl. í Nd., en dagaði þá uppi. En við flytjum þetta frv. nú aftur í þessari hv. deild, og ástæðan til þess er m. a. sú, að það er einn liðurinn í frumvarpakerfi því, sem lá fyrir síðasta Alþingi um alþýðutryggingar. Er ætlazt til, að þeir menn og konur, sem ekki eru tryggðir samkv. l. um alþýðutryggingar, þ. e. fólk, sem er haldið langvarandi sjúkdómum, eins og til er tekið í 1. gr. frv., njóti styrks samkv. lögum þessum. Ég þarf ekki að fara ýtarlega út í þá sögu, hversu mikið böl slíkt fólk býr við, sem líður af þeim sjúkdómum, eða hvílík byrði það er þeim aðstandendum, sem sjá fyrir því. Reynslan hefir sýnt, að fjölda manns er það um megn að sjá fyrir þessum vesalingum, eða í mörgum tilfellum olnbogabörnum, og ofviða að búa svo að þeim, að þeim geti liðið vel. Þess vegna er meginhugsun frv., að hér komi ríkið til og leggi fram þann kostnað, er leiðir af sjúkrahúsvist.

Samkv. grg. þeirri, sem fylgdi þessu frv. í fyrra, leiðir af þessu talsverðan kostnað, eins og þar var allýtarlega gerð grein fyrir og nefnd til fjárupphæð; að vísu er ekki hægt að segja með fullri vissu, hver krónutalan verður, en óhætt mun að ganga út frá þó nokkurri upphæð.

Ég skal ekki þylja upp alla grg., en vil vísa hv. þm. á að kynna sér hana, hún er í skjalapartinum frá í fyrra, þskj. 406. Hygg ég, að þar sé allýtarlega sýnt fram á nauðsyn þessa máls og þörfina fyrir, að ríkið hlaupi hér undir bagga, eins og ég drap á áðan.

E. t. v. má líta svo á, að mál þetta sé ekki nógu snemma fram komið, en þó hygg ég, að nægur tími sé eftir af þingi til afgreiðslu þess, ef nægur vilji er fyrir hendi. Ég tel svo ekki þörf á að fara ýtarlegar út í þetta en ég hefi gert, en leyfi mér að óska þess, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til allshn., enda mun það hafa legið fyrir þeirri n. í hv. Nd. í fyrra.