16.04.1936
Sameinað þing: 13. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í B-deild Alþingistíðinda. (93)

1. mál, fjárlög 1937

*Jakob Möller:

Hæstv. ráðh. kvartaði undan þeim getsökum, sem ég hefði viðhaft í garð ríkisstj. með því að gizka á það, að hún vildi ekki ógjarna fá til umráða nokkra upphæð af ríkistekjum utan fjárlaga. Segir hann, að þessar getsakir séu fluttar af litlu tilefni, því stj. hafi ekki hagað sér þannig síðustu ár, að það gefi tilefni til slíkra getsaka. Það vill nú svo til, að hæstv. stj. hafði nú ekki svo miklar umframtekjur að svalla með árið 1935, að nokkuð verði ráðið af hennar framferði þá um það, hvernig hún mundi haga sér, ef svo heppilega vildi til fyrir hana í framtíðinni, að hún fengi meira á milli handanna. En að getsakir mínar séu þar fyrir með öllu ástæðulausar, verð ég eindregið að neita vegna þess, að þó sú hæstv. stj., sem fer með völdin þetta árið af hálfu þeirra flokka, sem hér hafa meirihl.-vald í þinginu, hafi ekki brotið af sér í þessu efni, fyrst og fremst af því, að hún hefir enga aðstöðu haft til þess, þá er saga þeirra flokka, sem þessi stj. styðst við, lengri en frá árinu 1935 og því hálfa ári 1934, sem þessi stj. sat, og við þekkjum frá fyrra valdatímabili þessara flokka, að ríkisstj. þeirra hefir fengið milli handa allmiklar fjárfúlgur, sem hún hefir svallað með án nokkurrar íhlutunar af þingsins hálfu, og ég tel það réttmætar getsakir í garð þessara sömu flokka, að þeir mundu haga sér svipað. ef þeir kæmust aftur í svipaða aðstöðu. Tel ég ekki ástæðu til að gera frekari grein fyrir þessu, því það fé, sem ríkisstj. núverandi stjórnarflokka fyrr á árum ráðstafaði utan fjárlaga, skipti mörgum milljónum, og það er öllum kunnugt. Leyfi ég mér að halda fram, að það sé full ástæða til þess fyrir stjórnarandstæðinga að óttast það, að slíkt mundi endurtaka sig, ef núverandi stj., sem styðst við þessa sömu flokka, kæmist í sömu aðstöðu.

Ég neita, að í því sé fólgið nokkurt ábyrgðarleysi hjá stjórnarandstæðingum, þó þeir krefjist, að fjárlögin séu þannig úr garði gerð, að þau séu sem næst réttri mynd af fjárhagsástandinu, einnig að því, er snertir tekjuáætlanirnar. ekki síður en gjaldaáætlanirnar. Það er ekkert annað, sem við sjálfstæðismenn í fjvn. förum fram á að þessu sinni. Og ef ekki verða teknar til greina till. okkar um niðurfellingu tekjuliða. munum við gera okkar till. til 3. umr. með hliðsjón af því.