23.03.1936
Efri deild: 31. fundur, 50. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (930)

85. mál, ríkisframfærsla sjúkra manna og örkumla

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég vildi bara við þessa 1. umr. leyfa mér að benda hv. d. á, að í raun og veru nær sú löggjöf, sem sett var í fyrra um alþýðutryggingar, ekki tilgangi sínum, nema sett séu lög í svipuðu formi og þetta frv. um ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla. Þessi þrjú frv., um alþýðutryggingar, framfærslu, og ríkisframfærslu sjúkra manna og örkumla, voru öll flutt á þingi í fyrra sem einn samfelldur bálkur; voru aðeins 2 þeirra samþ., en þetta frv. varð afgangs.

Ég skal benda á það í þessu sambandi, að það væri ákaflega heimskulegt, jafnframt því, sem það væri ranglæti, að sjá fyrir veikum mönnum fyrstu 6 mánuðina, en síðan, ef veikindi þeirra væru langvarandi, t. d. berklar, kasta þeim út á gaddinn, ef svo mætti að orði komast. Ætlunin með frv. þessu er sú, að styrkja þá, sem haldnir eru langvarandi sjúkdómum, til sjúkrahúsvistar eða hælisdvalar, svo að þeir þurfi ekki að njóta fátækrastyrks.

Ef frv. þetta nær ekki fram að ganga nú, þá verður, að ég hygg, óhjákvæmilegt að breyta l. um alþýðutryggingar. Þar er gert ráð fyrir því, að sjúkrasamlögin sjái fyrir mönnum fyrstu 6 veikindamánuðina, en síðan taki annað við. Nú var ráð fyrir því gert að fella niður berklavarnagjaldið, sem er 2 kr. á mann, einmitt vegna þess að sjúkrasamlögin eru styrkt af héruðum — sveitar- eða bæjarsjóðum — til þess að sjá um sjúkrakostnaðinn fyrsta missirið, og þess vegna væri ranglæti að halda þessu 2 kr. gjaldi óbreyttu. Ég ætla, að þetta atriði eitt út af fyrir sig nægi til að sýna nauðsyn þess að fullgera þessa löggjöf.

Annars er meginefni frv. að færa alla þá menn, sem haldnir eru langvarandi sjúkdómum, saman undir hliðstæða löggjöf um styrk eða hjálp — þ. e. a. s. ef efnahagur þeirra er þannig, að stefnt sé í voða —, er nemi allt að 4/5 kostnaðar, eins og nú er eftir berklavarnalögunum, og er þetta því engin breyt. fyrir berklasjúklinga. Um ýmsa aðra sjúkdóma gilda mismunandi reglur um, hversu mikinn styrk sjúklingar skuli fá. T. d. fá geðveikir menn ekki greiddan hærri styrk en sem nemur 1/3 dagpeninga, hinsvegar fá holdsveikir — sem betur fer eru fáir — greiddan allan kostnað, og sömuleiðis er allur sjúkrahúskostnaður og læknishjálp vegna kynsjúkdóma greitt úr ríkissjóði. Hinsvegar eru fleiri sjúkdómar, sem færri eru haldnir af, en þó eru langvarandi, en nú er enginn styrkur greiddur fyrir, en ættu eftir eðlilegum hætti að sæta sömu meðferð, enda eru þeir sjúklingar taldir upp í 1. gr. frv., eins og t. d. blindir og fávitar, sem að vísu voru sett l. um í fyrra, en eiga að falla undir ákvæði þessa frv., örkumla fólk, og loks eiturlyfjaneytendur og ofdrykkjumenn, sem eiga að koma undir þessi lög.

Það er áreiðanlega rétt, sem getið var í framsögu, að við framkvæmd þessara l. mun verða talsverður kostnaður fyrir ríkissjóð. Eftir áætlun, sem landlæknir gerði þar um í fyrra, var gert ráð fyrir 90 þús. kr. En hver kostnaðurinn verður, fer að töluverðu leyti eftir því, hve ríkissjóður ræðst í miklar sjúkrahúsbyggingar. Ég get fallizt á till. hv. 1. flm. þessa frv. um að vísa frv. til allshn., og vildi ég mælast til, að hún hraðaði afgreiðslu þess eftir því, sem föng eru á.